Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir og fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar átti félag á Tortóla frá 2001 og fram að hruni. Eignarhald þess var í höndum fjárfestingafélags hans í Lúxemborg. Vilhjálmur þvertók fyrir að eiga aflandsfélag í skattaskjóli þegar hann sagði af sér gjaldkerastöðu í Samfylkingunni. Tortólafélagið hafði engin áhrif á skattgreiðslur hér á landi að sögn Vilhjálms sem í dag sagði sig úr stjórn fjölmiðilsins Kjarnans vegna málsins.

Þetta kemur fram í Panama-skjölunum svokölluðu. Kastljós fjallaði um efni þeirra í kvöld í samstarfi við Reykjavik Media, Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna og þýska blaðið Süddeutsche Zeitung.

Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir og áhrifamaður í Samfylkingunni, sagði af sér gjaldkerastöðunni í flokknum eftir að fluttar voru fréttir af félögum í hans eigu í Lúxemborg og á Kýpur. Eftir að fullyrt var í frétt á Eyjunni á dögunum að nafn Vilhjálms væri „á lista yfir eigendur aflandsfélaga” þvertók Vilhjálmur fyrir að svo væri:

“Ég afneita því alla vega að eiga „aflandsfélag“ í „skattaskjóli“. Ég á félag í EES-landinu Lúxemborg, eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum, og það er fullskattlagt.”

Meson Holding SA er félagið sem Vilhjálmur vísar til þess að eiga í Lúxemborg. Það félag var og er eigandi íslenskra fyrirtækja; svo sem eins og fjárfestingafélagsins Teton ehf., sem aftur átti stóra hluti í Kögun og fleiri félögum. Félagið á nú meðal annars hlut í Kjarnanum. Vilhjálmur á einnig sæti í stjórn fjölmiðlafyrirtækisins.

Sjálfur sagði Vilhjálmur skattalegt hagræði ekki ástæðuna fyrir staðsetningu félags síns í Lúxemborg, eða félaganna tveggja á Kýpur. Vísaði hann sérstaklega í skattalagabreytingar síðustu ríkisstjórnar sem hefðu orðið til þess að gefa varð upp eignir slíkra félaga og greiða af tekjum þeirra eins og ef um íslenskar eignir væri að ræða. Vilhjálmur hefur þó ekki svarað því hvort skattalegt hagræði hafi verið ástæða þess að hann ákvað að skrá fjárfestingafélag sitt í Lúxemborg fyrir lagabreytinguna 2010.

Í pistli á heimasíðu sinni 30. mars,  „Meint aflandsfélög og skattaskjól”, svaraði Vilhjálmur gagnrýni sem komið hafði upp vegna þessara tengsla hans, um leið og hann sagði af sér embætti gjaldkera í Samfylkingunni.

„Félagið í Lúxemborg á dótturfélag á Íslandi sem heldur utan um flestar fjárfestingar mínar. Það á jafnframt dótturfélag á Kýpur utan um tilteknar hlutabréfaeignir. Lúxemborg og Kýpur eru innan EES og hvorugt landið er á lista RSK yfir lágskattasvæði.”

Þótt þessi lönd séu það ekki er eyjan Tortóla á Bresku-Jómfrúaeyjum það hins vegar. Samkvæmt gögnum Mossack Fonseca stofnaði Kaupþing í Lúxemborg félagið M-Trade á Tortólu í október 2001. Skráðir stjórnendur þess voru þrjú önnur Tortólafélög, en skráðir stjórnendur þeirra allt starfsmenn Kaupþings í Lúxemborg.

Raunverulegur eigandi M-trade og stjórnandi var þó annað félag sem skráð var fyrir öllum eignum Tortóla-félagsins. Félag Vilhjálms Þorsteinssonar, Meson-Holding í Lúxemborg. Nafn Vilhjálms er því ekki í gögnum Mossack Fonseca; nafn félags hans er það hins vegar.

Litlar upplýsingar eru fáanlegar um starfsemi M-Trade á Tortóla. Það tók við pósti sem áframsendur var til Lúxemborgar árið 2005 en var formlega afskráð 2012. Í upplýsingum um félagið í þessu yfirliti Mossack Fonseca segir að eignir þess séu bankareikningur, sem ekki eru frekari upplýsingar um.

Vilhjálmur baðst undan viðtali en í samtali við Kastljós sagði hann rétt að hann hefði átt félag á Tortóla í gegnum félag í Lúxemborg. M Trade hafi verið stofnað af Kaupþingi í Lúxemborg í því skyni að stunda afleiðuviðskipti. Reglur í Lúxemborg hafi ekki leyft að slík tegund viðskipta færi fram í gegnum félag hans þar og því hafi þessi leið verið farin.

Vilhjálmur kvaðst ekki vita hversu miklir fjármunir hefðu farið í gegnum félagið né heldur hvaða tekjur hefðu orðið til vegna samninganna. Félagið hafi starfað fram að hruni bankanna. Vilhjálmur sagði að þar sem eigandi þess hafi verið í Lúxemborg hafi það ekki haft áhrif á skattskil hans hér á landi.

Spurður hvers vegna hann greindi ekki frá umræddu félagi í pistli sínum á dögunum eða í umræðum um málið, sagðist Vilhjálmur ekki hafa talið ástæðu til að gera það sérstaklega, enda hefði félagið löngu hætt starfsemi ólíkt þeim sem þá var rætt um.

Fyrir stundu birtist á vef Kjarnans tilkynning þar sem segir að Vilhjálmur hafi sagt sig úr stjórn fjölmiðilsins í kjölfar fréttaflutnings af tengslum hans við aflandsfélög og Panama-skjölin.