Ásgrímur Sverrisson, kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés, segir það til marks um sterka stöðu íslenskrar kvikmyndagerðar að ákveðið hafi verið að halda verðlaunahátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í Hörpu í desember 2020.
Rætt var við Ásgrím í Samfélaginu á Rás 1.
Megintilgangur verðlaunanna er sagður vera að efla og vekja athygli á evrópskri kvikmyndagerð. Hátíðin er haldin annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu. Hátíðin hefur laðað til sín erlenda gesti víða að úr kvikmyndaheiminum og vel á annað hundrað erlenda blaðamenn. Ráðgert er að hátt í 1.400 gestir verði viðstaddir verðlaunahátíðina sjálfa og að sýnt verði beint frá henni, hér og víða erlendis.
„HIngað mun þá væntanlega koma mikið af þekktum evrópskum stjörnum og hvers konar fólki sem vinnur við evrópska kvikmyndagerð,“ segir Ásgrímur.
Börn náttúrunnar mörkuðu tímamót
Fjórir Íslendingar hlotið verðlaunin. Hilmar Örn Hilmarsson fékk verðlaun fyrir bestu tónlistina í kvikmyndinni Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson og árið 2000 var Björk Guðmundsdóttir hlutskörpust í flokki leikkvenna fyrir hlutverk sitt í mynd Lars von Trier, Dancer in the Dark. Hún hlaut einnig áhorfendaverðlaunin það ár fyrir leik sinn og Ingvar E. Sigurðsson hlaut áhorfendaverðlaun fyrir leik í Englum alheimsins í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar.
„Það að við skulum yfirleitt koma til greina [til að halda hátíðina] er hluti af því mengi af því sem hefur gerst á síðustu tíu árum eða svo, tíu eða fimmtán árum, kvikmyndagerðin hér er komin á það plan að hún er með í jöfnunni. Áður var þetta þannig að, kannski svona frá og með '90 eða svo, þegar Friðrik Þór fær þessa tilnefningu fyrir Börn náttúrunnar að þá gerðist það að menn vissu að [íslensk kvikmyndagerð] var til. Síðan hefur það smátt og smátt byggst upp og í það að núna, svona á síðustu tíu árum eða svo, að þá er Ísland orðið eins og hvert annað land í Evrópu að því leytinu til að það er með öllu og í jöfnunni, og ekki bara það heldur einnig mjög framarlega og er að gera myndir sem vekja verulega athygli í þessum kvikmyndaheimi. Þetta tel ég líklegt að sé hluti af þessu öllu.“
Aðsókn á íslenskar myndir hlutfallslega mikil
Ásgrímur segir að lítill markaður hér á landi geri það að verkum að þrátt fyrir að góð aðsókn sé á íslenskar kvikmyndir þá dugi það ekki fyrir framleiðslukostnaði, hvað þá að hagnaður verði af kvikmyndargerðinni. Þess vegna þurfi að vera styrkjakerfi. Fjöldi íslenskra kvikmynda hafi aukist frá aldamótum. „Það þýðir að myndum sem fá litla aðsókn hefur líka fjölgað. Auðvitað eru þær kannski helmingur eða meira sem eru ekki að fá sérlega mikla aðsókn, og þá meina ég aðsókn undir tíu þúsund og jafnvel undir fimm þúsund í sumum tilvikum. Hins vegar gleymist alltaf í þessari umræðu að alls staðar annars staðar í heiminum þá þætti hlutfallslega svona aðsókn bara mjög fín. Við segjum bara að þetta séu svo fáir að það tekur því varla að tala um þetta, þetta er hræðilegt. Það að fá 20 þúsund, jú það er kannski allt í lagi en það er samt eiginlega ekkert mikið. Menn væru öskrandi og hoppandi hæð sína yfir sambærilegri aðsókn á eiginlega öllum öðrum mörkuðum,“ ef þeir fengju jafn stórt hlutfall þjóðarinnar á sína kvikmynd.
„Þetta er veruleiki sem við eigum að fagna vegna þess að ef þú horfir á aðsóknartölur til lengri tíma á íslenskar myndir þá er hún gegnumgangandi mjög góð og meðaltalsaðsóknin er mjög há. Þú getur borið saman hvaða annað land. Það er hægt að segja: Íslendingar almennt taka íslenskum kvikmyndum fagnandi. Þeir vissulega gera upp á milli mynda, alveg miskunnarlaust, bara eins og er eðlilegt. En ef við horfum yfir meðaltalið og það er ágætis vísbending um áhuga þjóðarinnar. Það segir vissa sögu og það er bara mjög hátt og eiginlega hærra en það sem þú sérð annars staðar.“
Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.