Í dag er svartur föstudagur, tilboðsdagur að bandarískri fyrirmynd sem hefur verið að ryðja sér til rúms hér á landi undanfarin ár. Neytendur segjast vera vel á verði fyrir gylliboðum.

Neytendur um allan heim freistuðu margir gæfunnar í dag og reyndu að gera góð kaup fyrir jólin á svarta föstudeginum. Í Noregi voru verslanir opnaðar fyrr en vant er og þar átti fólk á hættu að troðast undir í hamaganginum þegar dyr verslana voru opnaðar.

Verslunarstjórar voru sammála um að viðskiptin hafi færst meira á netið. „Það var röð strax fyrir utan í morgun. 30-40 manns allavega að bíða. Við búumst við meiri traffík seinna í dag en hefur verið. Það er meira álag á vefnum en nokkru sinni fyrr og Við höldum að þegar líður á daginn komi fólk hingað til að klára kaupin,“ Bragi Þór Antoníusson, markaðsstjóri Elko.

Er fólk að taka sér frí í vinnunni fyrir þennan dag? „Veistu ég gæti trúað því miðað við hvað það er mikið að gera,“ segir Vilma Ýr Árnadóttir, aðstoðarverslunarstjóri Rúmfatalagersins

Kalla eftir meiri afslætti hér á landi

Fólk er ýmist að nýta afsláttinn til að kaupa jólagjafir fyrir sig sjálft eða ástvini. Neytendur eru hvattir til þess að vera meðvitaðir fyrir gylliboðum á tilboðsdögum sem þessum. 

„Ég er búin að kynna mér verðin áður þannig að ég veit að þetta er ekki eitthvað sem er verið að plata,“ segir Olga Marinósdóttir. En heldurðu að það séu einhverjar verslanir sem leika þann leik? „Já, það eru verslanir sem gera það. Maður þarf að vera vel á verði sem viðskiptavinur,“ bætir Olga við. 

„Ég er búin að ákveða hvað ég ætla að kaupa en ég má ekki segja. Kannski kemur þetta í sjónvarpinu og strákarnir segja þá; mamma ég veit núna hvaða jólagjöf ég fæ,“ segir Aminata Conté.

„Í flestum verslunum sem maður er að sjá þá er oftast 15-25% afsláttur. Ef við ætlum að hafa þetta svartan föstudag eins og í Bandaríkjunum þá finnst mér að það mætti alveg gera aðeins betur en það,“ segir Katrín Alexsandra Helgudóttir.