Starfsgreinasambandið (SGS) hefur ákveðið að veita viðræðunefnd sinni heimild til þess að lýsa yfir árangurslausum viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Sambandið hefur átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins hjá Ríkissáttasemjara síðan 21. febrúar.

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að samningaviðræðurnar strandi á vinnutímamálum. „Það eru kannski aðallega þau sem standa útaf. Ef ekkert kemur um helgina þá myndum við óska eftir fundi á mánudag, sem verður að öllum líkindum árangurslaus fundur.“

„Staðan er sú að við erum búin að vinna með Samtökum atvinnulífsins í þrjár fjórar vikur, nærri samfellt,“ segir Björn. „Það er mikið af efni sem við erum búin að fara í gegnum og hefur gengið ágætlega. Margt er búið og sumt á lokasprettinum. Svo eru alltaf einhverjir þröskuldar sem erfitt getur verið að fara yfir og það er einn þröskuldurinn núna sem er í veginum fyrir okkur.“

Þannig að þið ætlið að slíta viðræðum? „Ja, það mundi gerast á mánudaginn ef ekkert kemur inn í þennan pakka sem við erum með.“

Björn segir viðræðurnar hafa verið góðar og að mikill árangur hafi náðst. „Svona er þetta stundum. Það er þröskuldurinn. Hann er svolítið hár.“

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari segist ætla að halda áfram að taka stöðuna á samningsaðilum og boða til fundar ef eitthvað kemur inn á borðið. „Þetta þýðir ekki að við séum að fara heim í frí,“ segir hún.