Undirbúningur er hafinn að viðræðum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um hver aðkoma stjórnvalda getur verið til að leysa kjarasamninga. Ljóst þykir að samningar takist varla fyrr en ljóst er hvað stjórnvöld eru tilbúin að gera.

Það má segja að þrír hópar innan verkalýðshreyfingarinnar séu í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. VR, Efling og Verkalýðsfélög bæði Akraness og Grindavíkur ræða við SA undir stjórn ríkissáttasemjara. Önnur félög innan Starfsgreinasambandsins ræða beint við atvinnurekendur og sömuleiðis iðnaðarmenn. Annar fundur félaganna sem vísað hafa til sáttasemjara í þessari viku var í dag og þriðji fundurinn er boðaður á föstudaginn. Svo virðist sem það miði helst áfram í viðræðum iðnaðarmanna og Samtaka atvinnulífsins. Þá miði einnig í kjaraviðræðum Starfsgreinasambandsins. Gagnlegir fundir eru haldnir hjá sáttasemjara en ljóst að talsvert langt er í land. Félögin við borðið hjá ríkissáttasemjara hafi eindregið hafnað tillögum SA um breytingar á vinnutíma. 

Stjórnvöld verði að sýna á spilin

Flestir sem Spegillinn hefur rætt við eru sammála um að ólíklegt sé að einn af þessum hópum klári viðræður og beri samninga undir atkvæði í sínum félögum. Að minnst kosti sé ólíklegt að Starfsgreinasambandið skrifi undir samninga áður en VR og Efling, tvö stærstu stéttarfélög landsins, ljúki samningum og skrifi undir. Allt hangi þetta saman. Öllum sé ljóst að tæplega verði lokið við samninga fyrr en verkalýðshreyfingin fær að sjá á spilin hjá stjórnvöldum eða með öðrum orðum hvað stjórnvöld eru tilbúin að gera í tengslum við kjarasamninga.

Margar kröfur á stjórnvöld

Kröfugerðir verkalýðshreyfingarinnar eru óvenjulegar vegna þess hve margar kröfur eru gerðar gagnvart stjórnvöldum. Hvernig þeim reiðir af getur haft áhrif á um hvað verður samið við samningaborðið með atvinnurekendum. Ríkisstjórnin hefur átt fjölmarga fundi með aðilum vinnumarkaðarins þar sem rætt hefur verið um einstaka málaflokka. Þetta eru fjölmennir fundir þar sem ekki er verið að semja um tiltekin mál heldur er um samráðsvettvang að ræða á milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Ákvörðun um að að koma af stað átakshópi í húsnæðismálum var tekin á slíkum fundi. Nú liggur fyrir niðurstaða sem sátt virðist vera um. En það eru fleiri kröfur gerðar á stjórnvöld og þar vega kannski skattamálin hæst. ASÍ hefur þegar kynnt sínar tillögur og von er á tillögum af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Viðræður á næstunni

Nú er í undirbúningi að hefja viðræður milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda þar sem leitað verði eftir samningsflötum. Þessi fundahöld hafa ekki verið teiknuð upp en ljóst að um fámenna hópa verði að ræða og samtalið verði bæði formlegt og óformlegt. Gert er ráð fyrir að SA taki þátt í þessum viðræðum. Eftir því sem Spegillinn kemst næst er hugsanlegt að fulltrúar fá BSRB, BHM og Kennarasambandinu taki þátt í viðræðunum. Samningar þessara hópa losna á næstunni. Þetta hefur þó ekki fengist staðfest. Samninganefnd Alþýðusambandsins kemur saman á morgun þar sem samskipti eða viðræður við stjórnvöld verða meðal annars ræddar.