Viðkvæmar upplýsingar úr sjúkraskrá manns voru enn aðgengilegar á vef Læknablaðsins, þótt Læknafélagið hafi hlotið dóm fyrir birtinguna, þar til nú rétt fyrir fréttir. Lögmaður mannsins segir þetta með ólíkindum.

Í janúar í fyrra voru Læknafélagið og ritstjóri Læknablaðsins dæmd til að greiða Páli Sverrissyni bætur, vegna upplýsinga úr sjúkraskrá Páls sem birtust í Læknablaðinu. Þar kom meðal annars fram að hann væri haldinn vitrænni skerðingu.

Ári áður, eða í janúar 2012, hafði Persónuvernd krafist þess í úrskurði, að upplýsingarnar yrðu fjarlægðar af vefnum. Það var gert fyrst nú í kvöld eftir að fréttastofa hóf að spyrjast fyrir um málið. 

Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður, sem vann málið gegn Læknafélaginu, segir þetta vekja furðu. „Það kemur mér í opna skjöldu að svo sé og ég verð bara að segja að mér finnst þetta ekki vera nein framkoma gagnvart þessum manni sem brotið var gegn.“

Sigurður gagnrýnir að upplýsingarnar hafi verið aðgengilegar svo lengi, þrátt fyrir að Persónuvernd hafi krafist þess að umfjöllun um Pál yrði felld út af heimasíðunni og að honum hafi verið dæmdar miskabætur. „Og þeir sjá ekki einu sinni sóma sinn í því, að fjarlægja þau ummæli sem þeir hafa verið dæmdir til greiðslu bóta vegna birtingar á. Og mennirnir verða auðvitað að gera grein fyrir sjálfum sér og biðja hann formlega afsökunar á því að hafa ekki gert það.“

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélagsins, sagðist í samtali við fréttastofu í dag hafa talið að upplýsingarnar hefðu fyrir löngu verið fjarlægðar af þeim vefsvæðum sem Læknafélagið hafi yfir að ráða. Það hafi því komið á óvart að enn hafi verið hægt að nálgast upplýsingarnar.