Jón Ársæll Þórðarson stjórnandi þáttaraðarinnar Paradísarheimt segir að það megi ekki vera þannig að til séu umræðuefni sem ekki megi ræða. Gísli Marteinn Baldursson spurði hann í þættinu Vikunni út í mikil viðbrögð sem viðtal hans við yfirlýstan nasista hefur vakið í samfélaginu. Jón sagðist geta talað við alla. „Við verðum að tala um allt.“
Jón Ársæll segir að þátturinn hafi ekki verið á dagskrá síðasta sunnudag því þá var minningardagur helfararinnar. „Því þá heldur, myndi ég segja, að við ættum að tala um nasismann. Þannig að ég er fyrir það að við tölum um hlutina. Að við þegjum þá ekki í hel einhvern veginn. Ég hef verið að því á undanförnum árum og í þessum þáttum mínum að tala við fólk og reynt að hlusta á alla.“
Aðrir gestir þáttarins tóku undir þetta. Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagðist sammála Jóni Ársæli um að sýna eigi alls konar fólk. Það sé ekki leiðin að betra samfélagi að ritskoða hverjum megi heyrast í og hverjum ekki. Sólmundur Hólm sagði að það verði að vera hægt að treysta því að áhorfendur hafi greind til að vita betur. „Að þau viti kannski betur. Að þau fari ekki að hoppa á vagninn.“
Hægt er að horfa á þennan hluta viðtalsins í spilaranum hér fyrir ofan.