Ólafur Jóhann Ólafsson hefur átt áratuga farsælan feril í bandarísku viðskiptalífi og álíka langan rithöfundaferil, sem hefur getið af sér vel á annan tug verka. Í viðtalsþætti Þóru Arnórsdóttur segist hann ekki velkjast í vafa um hvar ræturnar liggja. Þátturinn var tekinn upp á tímamótum í lífi Ólafs og verður sýndur í kvöld á RÚV.
Ólafur Jóhann gaf út sína fyrstu bók árið 1986, þegar hann var tuttugu og fjögurra ára, smásagnasafnið Níu lykla. Fyrsta skáldsagan, Markaðstorg guðanna, kom svo tveimur árum síðar. Síðan hafa alla jafna liðið tvö til þrjú ár milli bóka, þótt það hafi aðeins teygst á því á síðasta áratug. Ferlið er alltaf eins – og gagnstætt því sem fólki er iðulega sagt, sem gengur með rithöfund í maganum, að skrifa, skrifa og skrifa – þá gerir hann þveröfugt.
„Ég held í mér eins lengi og ég get því mér finnst að persónur verði að vera fullmótaðar og þær verða eiginlega að mæta til leiks fullskapaðar og fara bara með heimtufrekju að maður fari að festa þeirra sögu á blað. En þegar ég byrja að skrifa, þá kannski gerist þetta, að skrifa og skrifa og skrifa. Reglufesta, vinna hvern einasta dag ef mögulegt er.“
Faðir Ólafs, Ólafur Jóhann Sigurðsson, var þekktur og vinsæll rithöfundur, hlaut meðal annars Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1976. Í þættinum er hann spurður að því hvort hann hafi aldrei óttast að standa í skugga föðurins?„Nei, það hvarflaði aldrei að mér. Það er bara uppeldið. Feður ráða ansi miklu um það hvernig börnunum svona, sérstaklega ef þau eru að fara að gera það sama, hvernig þeim muni líða. En ég varð aldrei var við þessa tilfinningu hjá sjálfum mér, að ég ætti þetta á hættu.“
Umræðan um listamannalaun fór ekki fram hjá syni rithöfundarins og hversu óþægileg honum þótti hún. Sjálfur hefur hann svo verið tekinn sem dæmi um að það sé nú ekki endilega þörf á listamannalaunum. Ólafur Jóhann yngri hafi skrifað fleiri bækur en margir rithöfundar í fullu starfi.
„Ég er akkúrat á öndverðum meiði. Þetta er góð fjárfesting. Við verðum að styrkja listamenn ef við ætlum að eiga hérna einhvers konar menningarlíf. Ástæðan fyrir því að ég þarf þess ekki er náttúrulega bara undantekning vegna þess að ég fór að gera annað líka. Það á ekki að sanna neitt nema það að það sé undantekning.“
Stíll Ólafs Jóhanns hefur sannarlega breyst heilmikið á þessum rúmu þrjátíu árum. En það má líka spyrja, svona úr því að hann býr og starfar í öðru landi, á öðru tungumáli, sem er miklu stærri markaður fyrir, hvers vegna hann hafi alltaf haldið áfram að skrifa á íslensku?
„Sko, það hefur aldrei vafist fyrir mér hvar ræturnar liggja. Ég hef núna verið úti síðan 1982. En það hefur aldrei hvarflað annað að mér en ég væri Íslendingur. Kannski er þetta nú vegna þess að ég er alinn upp af hjónum sem fæddust 1918 og voru ung þegar Ísland varð lýðveldi. Það var náttúrulega ákveðin þjóðernishyggja sem þessi kynslóð aðhylltist. Það var ekki þjóðernisrembingur á neinn hátt, en það var land, þjóð og tunga, svo maður vitni nú í Snorra.“
Þáttur í umsjón Þóru Arnórsdóttur um rithöfundinn og viðskiptamanninn Ólaf Jóhann Ólafsson verður sýndur á RÚV í kvöld, föstudaginn langa, klukkan 19.40. Eftir þrjátíu ára starf við stjórnun bandarískra stórfyrirtækja meðfram farsælum rithöfundarferli er komið að tímamótum. Rætt er við fjölskyldu Ólafs og vinnufélaga og skyggnst undir yfirborðið.