„Við byrjum á því að slá á allar mýtur,“ segir Óskar Jónasson, leikstjóri sjónvarpsþáttanna Hvað höfum við gert?, sem fjalla um loftslagsbreytingar af mannavöldum og verða frumsýndir á sunnudagskvöld á RÚV.
Hvað veldur loftlagsbreytingum og hvenær byrjuðu þær? Hvaða áhrif hafa þær á jörðina og hvernig er hægt að bregðast við? Óskar segir að efasemdaraddir sem heyrst hafa um áhrif mannfólksins á hlýnun jarðar eigi ekki veið nein rök að styðjast. Staðreyndirnar tali sínu máli og meðal viðmælenda þáttanna eru fjölmargir vísindamenn. „Mjög snemma í fyrsta þætti sýnum við fram á það á mjög grafískt hvernig hlýnun jarðarinnar sé bein afleiðing af iðnbyltingunni, sem hófst á 19. öld.“
Því hefur verið haldið fram að hlýnunin séu eðlilegar hitasveiflur, eins og verið hafa reglulega í aldanna rás, en Óskar segir að þær kenningar haldi ekki vatni því þetta sé að gerast mun hraðar en áður og og hlýnunin sé mun meiri. „Þetta eru mjög greinilegar hitafarsbreytingar, á ekki mörgum árum og kúrvan fer mjög hratt upp,“ segir Óskar. Hugmyndin að þáttunum kom fram í kjölfar Parísarráðstefnunnar 2015, þá höfðu þau Elín Hirst og Þórhallur Gunnarsson verið hvort í sínu horninu með sömu hugmyndina. Þau tóku höndum saman, ásamt Sagafilm og RÚV, fengu Óskar með sér í lið og Sævar Helga Bragason sem umsjónarmann þáttanna og hófu vinnslu af fullum krafti fyrir einu og hálfu ári.
Lögð er áhersla á að koma á framfæri upplýsingum um hinar ýmsu hliðar hnattrænnar hlýnunar á skýran og myndrænan hátt. „Þættirnir eru á mannamáli, þetta eiga ekki að vera leiðinlegir þættir þó að skilaboðin séu stundum svolítið sláandi. Það á að vera auðvelt að horfa á þá fyrir hvaða aldur sem er.“ Óskar segist vona að þættirnir séu skemmtilegir og verði hvetjandi fyrir áhorfendur til að breyta til betri vegar. „Við þurfum að taka þetta til okkar og velta þessu fyrir okkur sjálf. Það er fyrsta skrefið, að byrja að viðurkenna vandamálið, horfast í augu við það og fara að sjá möguleika og tileinka sér einhverjar lausnir. Það eru margar lausnir í boði. Stóra lykilatriðið er að kaupa minna.“
Viðtalið við Óskar úr Mannlega þættinum má hlusta á í fullri lengd í spilaranum hér fyrir ofan.