Verkföllin leggjast mjög illa í félagsmenn í Félagi fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. Kristófer Oliversson, formaður félagsins og eigandi Center Hotels, segir félagsmenn ekki hafa neina aðra kosti en að mæta verkföllunum.

„Það eru gestir á hótelinu og við setjum þá ekki á götuna og ég vona að engum öðrum detti í hug að setja þá á götuna,“ segir Kristófer. „Menn eru mjög áhyggjufullir yfir þessu. Fyrirtæki eru mis vel í stakk búin til þess að mæta þessu, en allir ætla að mæta þessu. Það er enginn annar valkostur í stöðunni, það er vandinn.“

Verkföll hefjast að óbreyttu á miðnætti í kvöld þegar ríflega tvö þúsund félagsmenn Eflingar og VR leggja niður störf í tvo sólarhringa. „Við erum búin að undirbúa okkur með því að fækka fólki á hótelunum og ganga úr skugga um að það sé ekki inntékk á þessum tíma eða úttékk, eins og það heitir,“ segir Kristófer. „Þannig að það er minna af herbergjum að þrífa og svo framvegis. Það er langur listi af aðgerðum sem við erum búin að fara í til þess að mæta þessu. En fjárhagslega tjónið er til staðar og orðsporið er að skaðast á hverjum einasta degi.“

„Við hótelmenn höfum staðið okkar plikt“

Kristófer segir að það þurfi að ljúka þessum samningum hratt. „Við vorum búin að byggja upp þjóðarsátt í langan tíma en síðan var gerð bylting og aðallega þrjár persónur sem tóku yfir verkalýðsfélögin og leiða þau í aðra átt. Í mínum huga er það vandinn að fólk er ekki að ræða saman um hvað sé til skiptana eins og var gert í þjóðarsáttinni.“

„Við hótelmenn höfum staðið okkar plikt og höfum hækkað laun fólksins sem vinnur hérna hjá okkur, í evrum talið um 75 prósent á fimm árum. Það eru ekki margir sem geta státað af þessu,“ segir Kristófer. „Við erum búin að standa okkur þokkalega, nú er bara komið að einhverjum öðrum til þess að leggjast á árarnar með okkur. Það er alveg sama hvort það sé láglauna þerna, opinberstarfsmaður eða leikskólastarfsmaður. Það þarf sömu aðgerðir ef við ætlum að jafna kjörin hér í landinu.“

Spurður hvort hann sé að skora á stjórnvöld með þessum orðum segir Kristófer: „Við hótelmenn getum allavega ekki breytt samfélaginu.“ Hann segir verkfallið ekki bitna á Íslendingum fyrr en skaðinn sé skeður. „Það eru mjög margir sem horfa á þetta inní stofu eins og hverja aðra afþreygingu. Það væri miklu nær ef að þrifafólkið í líkamsræktarstöðvum færi í verkfall.“