Etum, drekkum, og verum glöð því dauðinn er við næsta horn, líkt og verkið The Clock, eða Klukkan, eftir Christian Marclay minnir okkur á. Verkið minnir okkur líka á hversu hversdagslegur tíminn er orðinn í gangverki dagsins í dag, þrátt fyrir að vera kannski það dýrmætasta sem við eigum.

Síðastliðin sjö ár hefur áhugavert listaverk ferðast um heiminn. Þetta er eitt þessum verkum sem sagt er að fari sigurför um heiminn. Verkið hóf sigurgöngu sína á Feneyjar-tvíæringnum árið 2011, og er sýnt um þessar mundir á Tate Modern safninu í London. Verkið hefur verið stöðugt í sýningu, einhvers staðar í veröldinni,  frá því það var frumsýnt, en alltaf bara á einum stað í einu, aldrei á tveimur stöðum á sama tíma, samkvæmt fyrirmælum frá listamanninum, hinum bandarísk-svissneska Christian Marclay.

Umrætt verk kallast The Clock, eða Klukkan, og það má eiginlega segja að verkið sé einmitt það, klukka, og því kannski nokkuð viðeigandi að segja örstutt frá verkinu núna, í síðasta þætti Víðsjár fyrir jól. Nú við upphaf jólahátíðarinnar, sem minnir okkur enn eitt árið á gang tímans, á vetrarsólstöðum, þessum ævafornu tímamótum sem hefur verið fagnað í hinum ýmsu myndum frá upphafi tímans. Og svo eru auðvitað áramótin handan við hornið líka, sem marka einhvers konar skil í okkar menningu, en auðvitað ekki allra.

Verkið Klukkan eftir Christian Marclay er ekki nýtt. Það var fyrst sýnt í White Cube-galleríinu í London árið 2010 og vakti strax verðskuldaða athygli, fyrir margar sakir og sín mörgu lög, en við fyrstu sýn er það öll vinnan sem fór í verkið sem grípur augað. Því það er sett saman úr þúsundum myndbrota úr kvikmyndasögunni. Brota sem öll sýna tímann í mynd eða í tali: klukku sem hangir á vegg, úr á úlnlið, fólk að ræða tímann, stundaglas í mynd, klukku á arinhillu og svo framvegis. Og það minnir okkur óneitanlega á það hvernig gangverk tímans hefur skapað okkur mannfólkinu ramma sem mótar allt okkar líf. Bakarinn vaknar klukkan fjögur, fólk snúsar útvarpsvekjaraklukkuna frá klukkan sjö, í hádeginu er borðað, í eftirmiðdaginn eru drukknir kokteilar, eftir miðnætti eru framin rán, og jafnvel morð, og við getum staðið í biðröð og borðað kleinuhringi á hvaða tíma sólarhringsins sem er.

Það tók Marclay og sex aðstoðarmenn þrjú ár að vinna verkið, kafa í gegnum kvikmyndasöguna, finna réttu brotin og klippa svo allt saman í eina heild. Hann hefur sagt frá þvi í viðtölum hvernig hann byrjaði á því að leita bara að klippum úr eldri og vandfundnum kvikmyndum og tilraunakenndri kvikmyndagerð en hafi svo fljótlega fært sig líka yfir í gamla þrillera, Hitchcock  og svo James Bond en svo á endanum séð að fallegast væri að blanda bara öllu saman. Í verkinu er því að finna ógrynni ólíkra kvikmyndaforma og stíla, lítið þekkt efni og tímalausa klassík úr til að mynda Citizen Kane, The Stranger, Psycho, Pulp Fiction, Titanic, Breakfast at Tiffany's og Indiana Jones. Erfiðast var víst að finna myndbrot sem sýna tímann eftir miðnætti og til dögunar, að miðnætti undanskildu því sú stund hefur víst verið mynduð ótal sinnum.

Marclay segist hafa fengið hugmyndina að verkinu árið 1995, þegar hann vann að svipuðu verki sem kallast Telephones, eða Símar, en þar hægt er að sjá sjö mínútur líða af símum að hringja og fólki að tala í síma. Verk Marclays hafa oftar en ekki kannað sambandið á milli hljóðs og myndar og í þeim má finna blöndu af konsept-list og fagurfræði pönksins, enda hefur listamaðurinn sjálfur nefnt Fluxus og menn á borð við John Cage, Yoko Ono og Vito Acconti sem áhrifavalda.

Klukka Marclays er ekki bara rannsókn á því hvernig tími, framvinda og flétta birtist okkur í bíó, heldur er verkið nokkurs konar klukka í sjálfu sér, því það er alltaf sýnt á rauntíma þess staðar sem það er á, og því í takt við tíma þess er horfir. Verkið er dáleiðandi og óreiðukennd framvindan heldur áhorfandanum þrátt fyrir að hér, ólíkt venjulegum bíó-upplifununum, gleymi áhorfandinn ekki stað og stund, hverfi ekki í annað tímabelti, heldur er ofurmeðvitaður um tímann, allan tímann. Það má því alveg segja að nokkurt barrokk sé í þessu vidjó-verki. Það má alveg líkja því við dimmu barrokkmálverkin þar sem hauskúpurnar, tímaglösin og fiðrildin minna okkur einmitt á þessa staðreynd, að tíminn rennur alltaf út í sandinn. Viðfangsefni sem hefur í listasögunni verið kallað Memento mori, og er ekkert annað en áminning um tímans þunga nið, dauðinn er alltaf handan við hornið. Öll munum við deyja. Klukkan tifar.

Viðfangsefnið er líka náskylt annars konar barrokk-uppstillingu sem kallast Vanitas, þar sem fölnuð blóm standa ásamt fagurlega smíðuðum hljóðfærum, eðalvíni, rándýrum bókum og öðrum munaði sem talin var bera vott um þann hégóma sem fólst í hinum dauðlegu hlutum. Sem skipta jú enn minna máli þegar þeir eru settir í samhengi við hið óumflýjanlega, dauðann.

 

Í vestrænni myndlist birtist tíminn okkur upphaflega sem persónugerving hins heilaga föður, því samkvæmt kristinni hefð var tíminn jú runninn undan rifjum guðs. Tíminn var eldri maður, oftast gráspengdur og skeggjaður, og oftar en ekki með vængi og stundaglas því tíminn flaug sama hvað. Hverfulleiki hins jarðbundna lífs var óumflýjanlegur og í algjörri andstæðu við hina tímalausu tilvist hins heilaga föður. Tímaleysið tilheyrði aldrei hinu jarðbundna lífi. Tíminn hefur svo fengið á sig aðra mynd í seinni tíð. Hver man ekki eftir bráðnandi klukkum súrrealistanna, verkum impressjónistanna sem sýndu tímann í nýju ljósi með því að nota ljós, verkum fútúristanna sem sýndu hversu hratt tíminn leið í stórborginni eða kúbistunum sem brutu upp tímann.

 

Tíminn er skrítin skepna. En þó að hann líði kannski mishratt eftir því hvar við erum stödd á jörðinni þá minnir Klukkan hans Marclays okkur á að tíminn er eitt af því sem sameinar okkur, eða kannski frekar stundirnar sem við sköpum okkur innan ákveðins tímaramma. Takturinn sem við lifum eftir, gangverkið sem stjórnar deginum, klukkan, minnir okkur að sama skapi á hvernig iðnbyltingin rammaði sólarhringinn inn, þegar fólk flutti úr sveit í borg og taktur tímans færðist nánast endanlega frá ökrunum yfir á færiböndin. Og verkið minnir okkur líka á það hversu hversdagslegur tíminn er orðinn í gangverki dagsins í dag, þrátt fyrir að vera kannski það dýrmætasta sem við eigum. En þessar hugleiðingar ná víst ekki lengra í dag. Því klukkan tifar og tíminn líður. Jólin eru handan við hornið, og svo áramótin, og svo framvegis. Við skulum því eta, drekka og vera glöð. Lyftum glösum og kveikjum á kertum, því klukkan tifar.