„Við erum búnir að skoða þá vel“

11.01.2017 - 22:20
Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætir Spáni í fyrsta leik liðsins á HM í Frakklandi annað kvöld. Spánverjar hafa tvívegis orðið heimsmeistarar og unnu til silfurverðlauna á Evrópumótinu í Póllandi fyrir ári síðan. Spánn og Ísland hafa mæst þrettán sinnum áður á stórmótum, en Ísland hefur einungis unnið tvær viðureignir.

Spila einfaldan en árangursríkan handbolta
„Það er ljóst að Spánn er gríðarlega sterkt lið og þeir spila skemmtilegan handbolta. Svona klassíska 6-0 vörn, þar sem þeir koma hátt upp, og við höfum reynt að vinna út frá því. Frammi við eru þeir að spila einfaldan en árangursríkan handbolta,“ sagði Geir Sveinsson landsliðsþjálfari þegar hann var spurður nánar út í lið Spánverja.

Línumennirnir mikilvægir
Ólafur Guðmundsson segir að búið sé að fara vel yfir spilamennsku spænska liðsins. „Þeir eru rosa þungir og „rútíneraðir“ í sínu spili og hafa spilað lengi saman. Þeir eru með langar klippingar og þunga línumenn sem erfitt er að eiga við og þeir munu dæla inn á þá alveg hægri, vinstri. En við erum búnir að skoða þá vel á myndbandsklippum og fórum vel yfir þá á æfingunni. Það kemur bara í ljós á morgun hvernig við náum að leysa úr því.

Búnir að nýta tímann vel
Guðjón Valur Sigurðsson segir að undirbúningsleikir liðsins í Danmörku hafi reynst ansi mikilvægir fyrir liðið. „Ég held við séum klárir í slaginn. Þetta er búið að vera góður undirbúningur, þrír góðir leikir í Danmörku, og við erum búnir að nota tímann eins vel og hægt er. Þetta er auðvitað mjög stuttur tími sem maður hefur, sérstaklega þegar það eru miklar breytingar hjá okkur. En við höfum nýtt tímann vel og þurfum bara að halda áfram að nota þessa leiki sem framundan eru til að slípa liðið.“

Mynd með færslu
Kristjana Arnarsdóttir
íþróttafréttamaður