„Við erum að tala saman og það er jákvætt,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um samningaviðræður aðila vinnumarkaðarins. Fundur samningsaðila hjá ríkissáttasemjara stóð í allan gærdag, frá klukkan 10 og fram á kvöld.

„Við munum hittast næstu daga og funda, vænti ég, nokkuð stíft. Það hlýtur að sýna einhver merki að fólk sé að tala saman,“ segir Ragnar Þór þegar gengið var á hann með hvort eitthvað hafi komið út úr fundinum í gær.

„Ég má víst ekkert tjá mig um hvernig samningaviðræður ganga en við erum að tala saman og það er jákvætt,“ segir Ragnar Þór. „Ég vona að það innilega að þetta leysist fyrir fimmtudag, áður en til aðgerða kemur aftur og við þurfum að fara í aðgerðir aftur.“

Ragnar Þór hefur sinnt verkfallsvörslu í dag og fylgst með hvort verkföll hótelþerna og rútubílstjóra gangi eðlilega fyrir sig í dag. Hann segir að töluvert hafi verið um verkfallsbrot í morgun. „Það sem við getum gert núna er að skanna þetta vel sem hjálpar okkur í undirbúningi fyrir næstu aðgerðir næsta fimmtudag.“

„Það eru aðallega að starfsmenn annarra stéttarfélaga eða undan stéttarfélaga eru að ganga í störf þeirra sem eru undir þessu aðgerðarplani. Það er að sjálfsögðu ólöglegt og við munum svara því með mikilli hörku eftir helgi með okkar lögmönnum. Sem og að stoppa í öll þessi göt sem við sjáum í dag fyrir aðgerðir á fimmtudag,“ segir Ragnar Þór.