Um tuttugu rúmenskir verkamenn sem unnið hafa hjá íslenskri starfsmannaleigu fá neyðaraðstoð frá Kópavogsbæ í viku, sem felur í sér húsnæði og mat. Mennirnir hafa miklar áhyggur af framtíð sinni á Íslandi og óska eftir að fá vinnu á nýjum stað.

Í síðustu viku fóru fulltrúar frá ASÍ ásamt lögreglu að skoða aðstæður rúmenskra verkamanna sem hafa unnið hjá starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu. Mennirnir bjuggu allt að tíu saman við mjög þröngan kost í Kópavogi og var 50 þúsund króna húsaleiga dregin af launum hvers þeirra. Launin sögðu þeir vera undir lágmarkstaxta. Í dag fóru mennirnir á fund hjá Vinnumálastofnun, ásamt fulltrúum Kópavogsbæjar, Eflingar og ASÍ.

„Það sem kom helst út úr þessum fundi er að Kópavogsbær er að hefja neyðaraðstoð til þess að finna húsnæði fyrir megnið af hópnum og mataraðstoð,“ segir Ragnar Ólason, sviðsstjóri kjaramála hjá Eflingu, sem sat fundinn fyrir hönd Eflingar.

Þá hefur Efling kjaramál þeirra til skoðunar og er að afla gagna til þess að ganga úr skugga um að mennirnir hafi fengið rétt laun fyrir sína vinnu.

„Við fengum á tilfinninguna að allir reyndu að gera sitt besta, að allir væru að reyna að hjálpa okkur, en nú hefur því miður verið ákveðið að tryggja okkur húsnæði og matarpeninga í aðeins eina viku. Við vitum ekkert hvað gerist eftir þessa viku,“ segir Catalin Jonut Caldare, einn rúmensku verkamannanna.

Vilja vinna

Caldare segir að mennirnir hafi miklar áhyggjur af því hvernig málin þróast.

„Okkur líður mjög illa. Við erum á götunni og atvinnulausir, og nokkrir eru með fjölskyldur og börn heima. Við þurfum að senda peninga heim og sjá fyrir fjölskyldum okkar.“

„Vinnumálastofnun er að reyna að finna handa þeim störf og um að gera ef einhvern vantar menn í vinnu að hafa samband við Vinnumálastofnun og óska eftir þeim í vinnu,“ segir Ragnar.

„Við viljum vinna. Það er okkar aðalmarkmið,“ segir Caldare. „Við komum til Íslands til þess að vinna okkur inn peninga. Þess vegna langar okkur að spyrja alla atvinnurekendur á Íslandi hvort þá vanti ekki menn í einhver störf. Við erum tilbúnir að vinna, við erum mjög góðir vinnumenn og sumir okkar hafa mikla reynslu af því sem við gerum.“