Skáldið Látra-Björg kemur við sögu í að minnsta kosti þremur nýjum skáldverkum sem koma út fyrir næstu jól. Auk þess er unnið að heimildamynd um Björgu, sem fæddist fyrir sléttum 300 árum.
Látra-Björg (Björg Einarsdóttir) fæddist árið 1716. Hún var förukona og kraftaskáld, en margar sögur fara af því hvaða áhrif kveðskapur hennar hafði.
Höfundakvöld í Gunnarshúsi fimmtudaginn 20. október verður helgað Látra-Björgu og sterkri innkomu hennar hennar á 300 ára afmæli sínu. Höfundar og kvæðamenn koma þar fram. Valgarður Egilsson, sem árið 2014 sendi frá sér bókina Steinaldarveislan þar sem Látra-Björg og hennar heimaslóðir koma við sögu. Valgarður hefur sent frá sér fjölda skáldverka og til margra ára farið sem leiðsögumaður frá heimaslóðum sínum um Látraströnd og Fjörður, enda manna fróðastur um lífið þar. Sigurlín Bjarney, sem í haust sendir frá sér ljóðabókina Tungusól og nokkrir dagar í maí, sem skiptist í þrjá hluta en í þeim fyrsta birtist okkur kraftaskáldið Látra-Björg í ímyndaðri dagbók. Sigurlín Bjarney vakið athygli fyrir ljóðabækur sínar, örsögur og smásögur. Hermann Stefánsson, sem í haust sendir frá sér skáldsöguna Bjargræði sem hefur Látra-Björgu að sögumanni og geymir fjölda kvæða hennar. Ragnheiður Ólafsdóttir kveður rímur við kvæði Látra-Bjargar en Ragnheiður er söngkona og doktor í rímnahefðinni. Og fyrir hönd hóps kvikmyndagerðarmanna sem vinnur að gerð heimildamyndar um Látra-Björgu mætir Arnar Sigurðsson á staðinn og fræðir gesti um verkefnið.
Halldóra K. Thoroddsen rithöfundur stýrir dagskránni, hún segir að við höfum öll okkar mynd af Látra-Björgu. Halldóra heimsótti Lestina og sagði frá.