„Við eigum ekki að skammast okkar fyrir þetta. Þetta var ekki mér að kenna. Og þetta er ekki okkur að kenna. Mér finnst allt í lagi að fólk sjái og lesi að þetta er veruleikinn, að þetta á sér stað. Og þetta á ekki að gerast.“ Þetta segir Tinna Óðinsdóttir fimleikakona, sem var nauðgað á keppnisferðalagi erlendis.
Tinna er ein fremsta fimleikakona landsins. Hún greindi frá því í viðtali við Nútímann í dag að erlendur fimleikamaður hefði nauðgað henni á keppnisferðalagi í nóvember 2016.
Eftir lokahóf mótsins fór hópur fólks saman í eftirpartý í hótelherbergi hjá einum af liðsfélögum mannsins. „Og þegar fólk fer að tínast heim þá eru ég og vinkona mín eftir, bara svona að spjalla. Og þegar ég hugsa um þetta eftir á þá finnst mér einhvern veginn að þetta hafi alltaf verið ætlunin hjá honum.“
„Allt í einu breytist allt“
Tinna lýsir því hvernig tveir fimleikamenn héldu henni niðri á meðan sá þriðji nauðgaði henni. „Þegar við erum þarna uppi á þessu hótelherbergi þá allt í einu breytist bara allt. Og ég man ég horfi á vinkonu mína og ég verð allt í einu mjög hrædd. Og ég verð ekkert oft hrædd,“ segir Tinna. „Og þegar ég ætlaði að standa upp og fara þá fara þeir fyrir hurðina, og ég kemst ekki neitt. Og tvær litlar stelpur - við erum ekkert að fara að berjast við þrjá karlmenn. Ég vissi alveg að ég var búin að tapa. Og þeir vissu alveg hvað þeir voru að gera.“ Vinkona hennar hafi náð að komast út. Hún er erlend, og Tinna segist ekki hafa talað við hana eftir þetta.
Lokaði á alla
Eftir á var Tinna mjög dofin tilfinningalega. Hún hélt ofbeldinu leyndu fyrir sínum nánustu og vildi helst bara vera ein. „Ég segi ekki foreldrum mínum frá þessu af því að ég treysti mér bara ekki til þess. En ég fór að haga mér undarlega og þau náttúrulega vissu að það var eitthvað að angra mig,“ segir Tinna. Hún hafi loks sagt pabba sínum frá þessu í gegnum Facebook þegar hún var búsett erlendis.
Henni finnst mikilvægt að segja frá ofbeldinu og að sú bylting gegn kynferðisofbeldi sem nú á sér stað deyi ekki út. „Persónulega fékk ég kjark frá öðrum fimleikastelpum sem eru búnar að koma fram núna og segja sína sögu, og mér fannst ég ekki hafa neitt til þess að skammast mín fyrir. Og ég geri það ekki neitt. Og ég vona innilega að einhver þolandi fái kjark til þess að stíga fram.“ Þá vonar hún að fleiri verði meðvitaðir um breytingar á hegðun sinna nánustu, sem geti verið - eins og í hennar tilfelli - merki um vanlíðan í kjölfar kynferðisofbeldis. „Mér finnst ótrúlega mikilvægt að þessi bylting sé komin til að vera. Að þetta verði ekki bara einhver bóla, og svo fer allt aftur í sama far.“
Hún íhugar núna að tilkynna nauðgunina til fimleikasambandsins í heimalandi mannsins, með aðstoð Fimleikasambands Íslands. „Bara til þess að stoppa hann. Og láta þau allavega vita. Ég veit að formaðurinn hjá okkur myndi vilja vita, ef þetta hefði verið Íslendingur.“
Lengri útgáfu af viðtalinu má sjá hér fyrir neðan.