Íslensk stjórnvöld eiga að beita sér á vettvangi NATO fyrir því að Tyrkir gefi leyfi til þess að líkamsleifar þeirra sem féllu í Afrín í Sýrlandi verði sóttar. Þetta segir Lárus Páll Birgisson vinur Hauks Hilmarssonar sem talið er að hafi fallið þar.
Fréttaskýringaþátturinn Kveikur fór til Sýrlands á slóðir Hauks Hilmarssonar sem barðist með Kúrdum gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki. „Og ef hann hefði fallið í bardaga við ISIS það hefði verið, ég segi ekki huggun en það hefði verið skiljanlegt. En það sem er svo óskiljanlegt, er að þetta er NATO ríki sem að drepur hann. Þetta eru bandamenn íslensku ríkisstjórnarinnar sem drepa hann. Og það særir mann mikið já. Að það eru bandamenn ríkisstjórnar Íslands sem gera þetta, og það virðist öllum vera sama hvort þeir geri þetta eða ekki,“ segir Lárus.
Næstum heilt ár frá árásinni
Það er erfitt fyrir fjölskyldu og vini að fá ekki endanlega staðfestingu á afdrifum Hauks. „Við eigum eftir að fá Hauk aftur heim. Við eigum eftir að finna líkið, það á eftir að staðfest það að hann hafi fallið akkúrat þarna.“ Lárus spyr sig hvers vena það sé ekki hægt. Nú sé að verða komið ár síðan og Tyrkir hleypi enn engum inn á svæðið.
Trúir þú sjálfur að hann hafi fallið þarna?
„Já mér finnst allt benda til þess. Ég hef ekki fengið neinar fréttir sem sannfæra mig um eitthvað annað.“