Sviðstjóri hjá verkfræðistofunni Eflu segir að ákveðið hafi verið að engin mengandi starfsemi verði í Finnafjarðarhöfn. Hins vegar sé stefnt að uppbyggingu fiskeldis og vetnisframleiðslu á hafnarsvæðinu. Áform séu um að flytja bæði út fisk og vetni.

Ekki höfn í Gunnólfsvík

Bæði Landvernd og Umhverfisstofnun gagnrýndu áform um hafnarframkvæmdir í Finnafirði sem gert var ráð fyrir þegar aðalskipulagi Langanesbyggðar var breytt 2012. Gagnrýnin beindist einkum að því að hafnarsvæðið yrði að hluta í Gunnólfsvík í Finnafirði. Víkin og Gunnólfsvíkurfjall eru á náttúruminjaskrá og bæði Landvernd og Umhverfisstofnun lögðust gegn því að iðnaðarsvæði raskaði náttúrunni þar. Eftir því sem næst verður komist er sjaldgæfar plöntur að finna þarna eins og til dæmis fjallakræfil sem er á válista, skógfjólu og lyngjafna.
 
Nýlega var stofnað félag um þróun og uppbyggingu svæðisins. Bremenports á 66% hlut, verkfræðistofan Efla 26% og Vopnafjörður og Langanesbyggð 8%. 

En hverju svara eigendur félagsins gagnrýni Landverndar og Umhverfisstofnunar? Hafsteinn Helgason, sviðsstjóri viðskiptaþróunar hjá Eflu, segir að samkvæmt aðalskipulaginu hafi staðið til að byggja upp hafnarsvæði í Gunnólfsvík og líka sunnan til í firðinum. Hann segir að svæðið hafi verið rannsakað og ekki hafi fundist, hvorki norðan né sunnan megin, sjaldgæfar plöntur. Nú séu ekki áform um að hafnarsvæðið nái til Gunnólfsvíkur.

„Það sem hefur gerst í meðferð málsins er að Gunnólfsvíkursvæðið og allt svæðið norðan Finnafjarðar er ekki lengur hluti af Finnafjarðarhafnarþróunarverkefninu. Það sem við erum að vinna að mun allt verða sunnan megin fjarðar,“ segir Hafsteinn.

Samkvæmt þessu á því megingagnrýni bæði Landverndar og Umhverfisstofnunar ekki lengur við.

Ekki mengandi stafsemi

En hvað um mengun frá höfninni sjálfri? Hafsteinn segir að ekki sé hjá því komist að starfsemi hafna skilji eftir sig einhverja mengun. Hann bendir á að á næstu áratugum verði breytingar á eldsneytisnotkun flutningaskipa, frá olíu yfir í jafnvel vetni.

„Aðilar eru sammála um það að við ætlum ekki að fá inn á þróunarsvæðið mikið mengandi starfsemi. Enga starfsemi í líkingu við það sem við sjáum á íslenskum stóriðjulóðum í dag,“ segir Hafsteinn.

Fiskeldi og vetnisframleiðsla

Hann segir að uppi á landi sé verið að horfa til umfangsmikils fiskeldis og vetnisframleiðslu.

„Við erum að horfa á vandaða útfærslu á fiskeldi á landi, jafnvel rúmlega 50 þúsund tonn. Við erum að horfa til þess að framleiða vetni með hreinni íslenskri raforku til að hafa súrefni fyrir fiskeldið og til þess að nota vetnið fyrir íslenska skipaflotann í framtíðinni og jafnvel til útflutnings vegna þess að það verður mjög mikil eftirspurn eftir vetni innan skamms,“ segir Hafsteinn.

Einnig er verið að tala um að höfnin í Finnafirði verði umskipunarhöfn þegar og ef skipaleiðin yfir norðurhvelið opnast. Hafsteinn bendir á að það muni ekki gerast fyrr en eftir einhverja áratugi.

Nánar er rætt við Hafstein Helgason í Speglinum.