Á undanförnum áratug hefur komið út fjöldi verka sem hefur tekist á við bóluárin og hrun bankakerfisins með skáldskapinn að vopni. Á næsta ári kemur út hjá bandarísku bókaútgáfunni Punctum bókin Útrásarvíkingar: The Literature of the Icelandic Financial Crisis 2008 - 2014 þar sem Alaric Hall rýnir í bókmenntir íslenska fjármálahrunsins.
Alaric Hall er lektor í miðaldabókmenntum við Háskólann í Leeds. Í bókinni Útrásarvíkingar: The Literature of the Icelandic Financial Crisis 2008 - 2014 kortleggur hann með hvaða hætti íslenskir skáldsagnahöfundar og ljóðskáld hafa fengist við hrun íslenska bankakerfisins í verkum sínum undanfarin áratug.
Hall segir að það hafi verið áhugi hans á miðöldum og forníslensku sem hafi kveikt áhugann á nútímaíslensku. Hann segir að hann hafi annars vegar lagst í þetta verkefni til að æfa sig og læra íslensku betur og hins vegar til að skilja betur hið alþjóðlega fjármálahrun 2008.
„Mér finnst áhugavert hvað Íslendingar skrifuðu mikið um hrunið,” segir Hall og dregur upp andstæðu við hinn enskumælandi heim þar sem fáir höfundar hafa fjallað með augljósum hætti um fjármálahrunið. Hann segist telja að nokkrar ástæður fyrir þessu, hér séu hlutfallslega margir að skrifa skáldsögur og markaðurinn sé opnari fyrir tilraunamennsku. Hann segir að hrunið hér á landi hafi verið sérstaklega dramatískt, en ekki síst var hrunið hér, ólíkt annars staðar, hrun þjóðarsálarinnar.
Lítið um kerfislæga gagnrýni
Í bókinni veitir Hall því athygli að hér, eins og annars staðar í heiminum, hafi fáar bækur sett fram kerfislæga gagnrýni á þróun fjármálakerfisins eða lýst krísu kapítalismans. „Það er auðvelt að sjá að það var höfundunum mjög erfitt að skrifa um fjármálakerfið, lánskerfið og svo framvegis, af því að þetta er mjög abstrakt. Höfundar eiga auðvelt með að skrifa um persónur og einstaklinga en ekki jafnt auðvelt að skrifa um samfélag eða kerfið sjálft,“ segir Hall.
Hann notar hugtakið kapítalískt raunsæi (e. capitalist realism) til að útskýra hvernig íslenskir höfundar áttu erfitt með að horfa út fyrir samfélagsgerðina sem þeir höfðu alist upp í, sjóndeildarhringur hugsunar þeirra var afmarkaður af hinu kapítalíska samfélagi. Þeir áttu því í erfiðleikum með að setja fram kerfislæga gagnrýni á samfélagskerfið sem gat af sér bóluárin og hrunið, og tókst ekki að vísa veginn fyrir þá frjóu útópísku hugsun sem átti sér stað í mótmælahreyfingunni um Nýja-Ísland, samfélag framtíðarinnar – eða eins og Hall orðar það í bókinni „veruleikinn tók fram úr ímyndunarafli íslensks skáldskapar.”
„Það er oft vísað í orð bandaríska bókmenntafræðingsins Frederics Jameson sem sagði að það sé auðveldara að ímynda sér endalok heimsins en að ímynda sér endalok kapítalisma,” segir Hall og vísar til dæmis í barnabók Þórarins Leifssonar, Bókasafn Ömmu Huldar.
„Börnin, persónurnar í bókinni, eiga bókstaflega að bjarga heiminum. En þegar heiminum er bjargað virðist hann bara vera eins og sá heimur sem við þekkjum. Hann nær ekki að ímynda sér annars konar samfélag,” segir Hall.
Hann segist telja súrrealískan skáldskap vera einna bestan til að takast á við verkefnið að gagnrýna hinn flókna samtíma okkar: „Súrrealismi segir okkur hvernig okkar samfélag er skrítið, og getur sýnt okkar hvernig samfélagið gæti verið annars konar,” segir Hall og nefnir í þessu samhengi til dæmis bók Eiríks Arnar Norðdahl, Gæsku, sem kom út í miðju hruni.
Gripu til femínískrar gagnrýni
Hall segir enn fremur að orðræðan sem margir skáldsagnahöfundar hafi gripið til þegar þeir voru að reyna að hugsa útópískt hafi verið sú róttæka orðræða sem hafi þegar verið til staðar, það er femíníska orðræðan, og umræðan hafi farið að snúast meira um hrun karlmennskunnar og kvenleg gildi frekar en fjármálamarkaðinn sem kerfi.
„Femínisminn var mjög áhugaverður og mikilvægur um það leyti þegar hrunið átti sér stað. Fólk hafði verið að gagnrýna karlmennsku svo það var auðvelt að gagnrýna menninguna út frá skoðun femínismans. Í bókmenntum voru höfundar oft að segja að ef við værum meira eins og konur væri allt í lagi. Ég trúi þessu ekki sjálfur. Ég tel að það sé mikilvægt að pæla í og gagnrýna kynjakerfinu sjálfu, en ekki bara segja „konur eru góðar” eða „konur geta bjargað okkur. Það er flóknara en það,” segir Hall.