Ein merkilegasta plata 20. aldarinnar, Philosophy of the World, frá árinu 1969 með hljómsveitinni The Shaggs er 50 ára í ár, en hún hefur verið sögð versta hljómplata sögunnar.


Þórður Ingi Jónsson skrifar:

Plata hljómsveitarinnar The Shaggs frá árinu 1969, Philosophy of the World, inniheldur eina merkilegustu tónlist 20. aldarinnar en jafnframt eina þá verstu. The Shaggs voru þrjár systur frá New Hampshire í Bandaríkjunum sem voru eiginlega neyddar af föður sínum til að stofna hljómsveit, þrátt fyrir að kunna ekkert á hljóðfæri. Plata þeirra, Heimspeki heimsins, er orðin költ og hefur reyndar verið það síðan á áttunda áratugnum. Þá lék tónlistarmaðurinn frægi Frank Zappa lög þeirra systra í útvarpsþætti Dr. Dementos. Zappa lét þau fleygu orð falla að The Shaggs væru betri en Bítlarnir. Þá sagði Kurt Cobain úr hljómsveitinn Nirvana að Philosophy of the World væri fimmta uppáhaldsplatan hans. Í dag eru eintök af upprunalegu plötunni gríðarlega verðmæt en sagan á bak við plötuna er jafnvel geggjaðri en tónlistin. 

Þetta byrjaði allt á því að móðir Bandaríkjamannsins Austin Wiggin Jr. hafði gaman af því að lesa í lófa. Hún spáði því að sonur hennar myndi giftast ljóshærðri konu og eignast tvo syni en þá yrði hún, amman, látin. Þau myndu einnig eignast þrjár dætur, sem myndu síðan stofna fræga hljómsveit. Austin óx úr grasi og flutti til New Hampshire-fylkis í byrjun sjöunda áratugsins þar sem hann giftist ljóshærðri konu! Þeim fæddust tveir synir og þrjár dætur, rétt eins og móðir Austins hafði spáð fyrir um - en um þessar mundir hún var einmitt nýfallin frá. Þá er komið að lokaatriðinu, að spádómurinn mundi rætast, að stelpurnar myndu stofna fræga hljómsveit. Það er þó erfitt að spá - og sérstaklega um framtíðina eins og sagt er. Dæturnar Dorothy, Betty og Helen, áttu eftir að verða frægar í gegnum tónlist sína en ekki á þann hátt sem pabbi gamli hélt.

Austin ákvað að þar sem allt í spádómnum hefði ræst nema þetta eina atriði yrði hann að taka af skarið. Austin lét Dorothy, Betty og Helen hætta í skóla hið snarasta árið 1967, keypti ódýr hljóðfæri og var með fasta rútínu fyrir þær. Þær áttu að læra heima á morgnana, æfa sig á hljóðfæri allan daginn og stunda síðan fimleika fyrir svefn. Hvorki Austin né dætur hans höfðu hundsvit á tónlist – hann kastaði þeim bara út í djúpu laugina.

Árið 1968 kom sveitin fram í fyrsta sinn. Þær léku tónlist sína í hæfileikakeppni, þar sem krakkarnir í salnum köstuðu gosi og sælgæti upp á sviðið og púuðu á stelpurnar. Faðir þeirra stóð þó við hliðina á sviðinu og stöðvaði öll frammíköll. Sveitin hélt áfram að spila vikulega í félagsmiðstöð í smábænum Fremont, þar sem þær bjuggu. The Shaggs þótti arfaslök hljómsveit en faðir þeirra hélt ótrauður áfram og bókaði hljóðver fyrir þær stöllur.

Upptökustjórinn hlustaði á þær hita upp og mælti með því að þær myndu koma aftur þegar þær væru búnar að læra aðeins betur á hljóðfærin sín. Pabbi þeirra þverneitaði og sagði að upptökustjórinn yrði að „ná þeim á meðan þær væru heitar“, eins og hann orðaði það. Úr varð þessi hörmulega en jafnframt yndislega plata.

Austin bannaði dætrum sínum að eiga líf fyrir utan hljómsveitina. Þær áttu enga vini og þær máttu alls ekki eiga samskipti við stráka - þeir voru stranglega bannaðir. Dæturnar voru neyddar til að æfa sig og troða upp og héldu áfram að vera lélegar. Þetta gekk ekki alveg því Helen, trommari sveitarinnar, varð ástfangin af strák. Þau giftu sig án vitundar föðurins en þegar upp komst náði hann í haglabyssu og hótaði að skjóta drenginn. Lögreglan í Fremont var kölluð til og Helen varð að velja á milli föður og eiginmanns. Hún valdi eiginmanninn og flúði eftir að hafa verið rekin úr bandinu. Seinna sá sá gamli að sér og dóttirin var aftur ráðin á trommur, þá orðin 28 ára.

Austin var í raun aldrei sáttur með frammistöðu dætra sinna – hann gagnrýndi þær stöðugt og skrifaði niður punkta eftir hverja tónleika um hvað betur mætti fara. Á einni æfingunni varð pabbinn í fyrsta og eina skiptið ánægður með hvernig hljómsveitin stóð sig. Stelpurnar höfðu loksins slegið hinn eina sanna tón. Seinna þann dag fékk Austin hjartaáfall og lést. Þetta urðu líka endalokin - eða byrjunin. Hljómsveitin lagði upp laupana. Stelpurnar sem voru þá orðnar fullorðnar, fóru hver í sína áttina út í hinn stóra heim og stofnuðu fjölskyldur, eignuðust loksins sitt eigið líf. 

En platan með The Shaggs lifir enn sem eitt merkasta dæmið um svokallaða utangarðstónlist, eða outsider music. Það er tónlist sjálflærðra tónlistarmanna sem standa algjörlega utan við tónlistarheiminn. Mikilvægasta atriðið í utangarðstónlist er einlægni tónlistarmannanna, sem eru oftar en ekki ómeðvitaðir um eigin hæfni eða vanhæfni.

Þessi sérstæða plata, Philosophy of the World, er 50 ára og á enn ákveðið erindi við almenning. The Shaggs hafa komið aftur saman og troðið upp á tónleikum á síðustu árum. Nú með „alvöru tónlistarmönnum“, innan gæsalappa, sem spila tónlistina eftir nótum nákvæmlega eins og hún var spiluð á plötunni. Í dag segjast þær systur aldrei hafa ímyndað sér að þær myndu nokkurn tímann hafa þessi áhrif á tónlistarheiminn. Þeim finnst platan reyndar ennþá vera mjög léleg.

Þótt tónlistin sé hörmuleg þá er ekki hægt að segja að maður hafi heyrt eitthvað eins og The Shaggs áður. Einstakur hljómur, rugluð saga og eitthvað alveg sérstakt, sjaldgæf innsýn inn í hið vonda sem fer allan hringinn og verður gott.