„Mér brá eins og mér gerir alltaf í svona. Ég hef fengið nokkra skjálfta hérna í gegnum tíðina,“ segir Stefán Þormar Guðmundsson, veitingamaður í Litlu kaffistofunni. Hann segir skemmdir litlar sem engar og myndasafnið hans sem prýðir Litlu kaffistofuna hangir óskaddað upp á veggjum.

„Það kemur allt í einu mikið högg á okkur. Ég stend hér við afgreiðsludiskinn og sé að það fer allt að víbra fyrir aftan mig, og fyrir framan myndir,“ segir Stefán um hvernig hann upplifði skjálftann. „Ég horfi á menn sem voru að koma hér inn, og þeir á mig, og við erum allir að skoða hvað er. Svo sátu hér menn inni í sal, sem sátu örugglega við vegginn. Ég sé að þeir koma allt í einu fram á fullu og beint út í bíl. Þeim hefur náttúrulega brugðið eins og okkur gerði líka.“

Stefán segir skemmdirnar litlar. „Það brotnaði einn vasi sem datt niður. Myndirnar mínar eru uppi á veggnum. Það er ég ánægður með. Mér finnst allt í lagi þó einhverjir bollar eða könnur hefðu farið en mér hefði liðið verr ef safnið hefði skemmst.“ Stefán hefur komið sér upp góðu safni íþróttaljósmynda og er þar ekki síst að finna margar myndir með uppáhaldsfélagi Stefáns, ÍA.

Á milli tuttugu og þrjátíu eftirskjálftar hafa mælst eftir skjálftann sem varð við Bláfjöll rétt fyrir hádegi. Skjálftinn sjálfur var 4,6 að stærð og á um 5,8 kílómetra dýpi. Eftirskjálftarnir hafa allir verið litlir, sá stærsti 1,7 stig. Að sögn jarðfræðings Veðurstofunnar bendir ekkert til eldsumbrota enda lítil tengsl á milli þeirra og jarðskjálfta. Stóri skjálftinn fannst víða á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar á Hvolsvelli, í Vestmannaeyjum og Mýrdalnum hafa einnig haft samband við fréttastofu og greint frá því að þeir hafi fundið fyrir honum.