Deilihagkerfið teygir anga sína æ víðar þessa dagana. Nú hefur hópur fólks tekið sig saman og stofnað Tólatek Reykjavíkur, Reykjavík Tool Library, félagsskapur sem safnar og lánar út ýmis konar smíða- og handverkfæri.

„Reykjavík Tool library er staður sem að virkar eiginlega eins og bókasafn, en í staðinn fyrir bækur ertu með verkfæri. Þú ert með árskort, svipað eins og á bókasafninu og getur fengið lánuð verkfæri með því að gerast meðlimur í eitt ár. Verkfærin eru ekki leigð út gegn greiðslu, heldur færðu aðgang að safninu eins og það leggur sig og sérfræðingum sem vita hvernig á að nota tækin, og svo framvegis,“ segir Hafliði Ásgeirsson, einn aðstandenda verkfærasafnsins Reykjavík Tool Library.

Deilihagkerfið teygir anga sína æ víðar í samtímanum og æ stærri hluti tilveru fólks byggist á slíkri samnýtingu gæða: á ferðalögum gistir fólk á heimilum annarra í AirB’n’B, fólk ferðast um með Uber, samnýtir bíla með Zipcar, og deilir skrifborðum í samvinnurýmum – það sem kallað er á ensku „co-working space“.

Það er auðvitað alls ekki ný hugmynd að margir einstaklingar geti deilt með sér nýtingu á hlutum eða jafnvel eignarhaldi – að það þurfi ekki allir að eiga sinn hlut og enginn annar megi nota hann, heldur megi aðrir hafa aðgang að honum ef ég er ekki að nota hann.

Það dæmi sem er kannski næst okkur eru bókasöfnin. Almenningsbókasöfn eru svo eðlilegur hluti af lífi okkar margra að við gleymum því oft hvað hugmyndin er í raun róttæk. Svo róttæk að það mætti velta fyrir sér hvort slík hugmynd hlyti brautargengi í dag.

En getur bókasafnsfyrirkomulagið virkað fyrir fleiri hluti en bækur? Þetta er spurning sem hin brasilíska Anna Carolina de Worthington de Matos veltir upp, en á dögunum opnaði hún Reykjavík Tool Library, safn af ýmis konar tækjum, smíðatólum og handverkfærum.

 „Það er að verða til æ fleiri svona verkfærasöfn víða um heim. Það eru mörg að spretta upp í Norður ameríku, sérstaklega Kanada en líka Bandaríkjunum. En í mínu tilviki kviknaði hugmyndin einfaldlega vegna þess að mig vantaði verkfæri,” segir Anna.

„Þegar ég bjó Bretlandi hafði ég aðgang að fjölda tóla en seldi þau öll þegar ég flutti hingað til lands. Þegar ég ætlaði að fara að kaupa mér ný verkfæri sá ég fljótt að ég hafði bara ekki efni á þvi - þau eru virkilega dýr. Ég vinn alls konar handverk í frítíma mínum, smíða meðal annars brimbretti, þannig að ég þarf oft mjög tiltekin og óvenjuleg verkfæri. Hættan er að þetta verði mjög dýrt tómstundagaman. Ég uppgötvaði að það eru margir í sömu stöðu, hafa ekki efni á slípirokk og jafnvel ekki efni á að leigja slíkar vélar frá verkfæraleigum. En með því að skiptast á þessum tækjum, skapa deilisamfélag þá verður þetta ódýrara fyrir alla, mun aðgengilegra, allir deila kostnaðinum við kaupin og viðgerðir ef eitthvað bilar. Þetta er bara betra vistkerfi.”

Reykjavík Tool Library hefur fjármagnað sig með hópfjármögnun á Karolinafund, en einnig fengið gefins nokkurn fjölda verkfæra, þannig að nú telja þau 400 stykki.  „Þetta hefur gengið vonum framar,” segir Hafliði

Færri kaupa, fleiri hafa aðgang

„Grunnhugmyndafræðin er nokkuð ólík kapítalismanum. Hugmyndin er að þú þurfir ekki að eiga það sem þú þarft að nota, heldur bara aðgang, og það þarf enginn að græða á því að þú hafir þessa þörf fyrir verkefni,” segir Linu Orri og Hafliði bætir við að það sé líka umhverfisvænna að deila. Það sé betra að margir deili einni góðri borvél frekar en að þeir kaupi allir ódýrar vélar, sem liggi annað hvort ónotaðar eða eyðileggist fljótt.

 „Ég held að fólk af okkar kynslóð og yngri séu orðin mjög meðvituð um það að auðlindir jarðarinnar séu af skornum skammti, þær séu ekki endurnýjanlegar. Þau eru því mjög opin fyrir þessu og vilja vera með. Á sama tíma skapar þetta samfélag og félagslegt vistkerfi, þú hittir fólk sem hefur þekkingu og færni sem þig skortir og þið getið unnið saman,” segir Anna.

„Ég finn fyrir þessu hjá yngra fólki, ég hef ekki heyrt jafn mikið frá eldra fólki – meðal annars af því að ég tala ekki nógu góða íslensku. En þetta er ný hugmynd og mun taka tíma fyrir fólk að skilja og sætta sig við, en að mínu mati er þetta leiðin áfram,” segir hún.

 „Deilihagkerfið gerir það að verkum að hlutir eru ódýrari fyrir fólk. En þetta er líka spurning um rými, það hefur meira rými ef það er ekki tekið undir tæki sem þú notar bara einu sinni. Við grínumst stundum með það að þú þurfir ekki borvél, heldur bara holu í vegginn. Það er ekki nauðsynlegt að eiga borinn heldur þarftu það sem borinn gerir. Þegar fólk uppgötvar þetta þá held ég að fólk taki við sér.”

 

Hittast til að gera við og deila þekkingu

Mánaðarlega verða haldnir sérstakir viðgerðahittingar, Repair Café, þar sem handlagnir sjálfboðaliðar mæta og hjálpa fólki að laga ýmsa muni frá fólki. „Þetta getur verið allt frá húsgögnum, í fatnað, einföld raftæki, keramík eða jafnvel einhverjir listmunir – allt milli himins og jarðar. Þetta er gert til að fá fólk til að hætta að henda hlutum sem gætu nýst,” segir Hafliði en leggur áherslu á að viðgerðina geri fólk í sameiningu, hjálpist að og læri hvert af öðru.

Það er hugur í stofnendum Reykjavík Tool Library og vonast þau til að geta stækkað safnið á næstunni, opna hlutasafn – Library of things – þar sem hægt verður að fá ýmsa aðra muni lánaða. „Eftir jól eða áramót viljum við svo opna stafræna smiðju, bjóða aðgengi að laser-skurðavélum, þrívíddarprenturum, stærri verkfærum sem er erfitt að færa með sér, og þá um leið aðgang að námskeiðum, vinnustofum, opnum tímum og fleira. Þetta verður miðstöð fyrir „makers movement“ – hreyfingu fólks sem vill skapa hluti,” segir Hafliði að lokum.