„Verkefni þessarar ráðstefnu er í sjálfu sér frekar tæknilegt. Það er að búa til reglur um hvernig við gerum grein fyrir árangri af aðgerðum þjóða, svona reka smiðshöggið á Parísarsamninginn," sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun um Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Póllandi.
Skýrsla IPCC, vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, var lögð fyrir þingið. Guðmundur Ingi segir mikilvægt að leggja þær til grundvallar í tengslum við Parísarsamninginn og markmið þjóða heims þegar kemur að honum. Afstaða fjögurra ríkja setti viðræður ráðstefnunnar í uppnám.
Bandaríkin, Rússland, Sádi-Arabía og Kúveit standa beinlínis gegn Parísarsamningnum. Guðmundur Ingi segir þetta draga úr mikilvægi þessara vísindalegu niðurstaðna sem fram koma í skýrslu IPCC. „Það finnst mér alvarlegt mál."
Umhverfisráðherra segir Ísland taka þátt í svokölluðu kolefnishlutleysisbandalagi og hafa skrifað undir yfirlýsingu nokkura þjóða um háleitari markmið. Á ráðstefnunni lagði Guðmundur Ingi áherslu á hafið og mikilvægi þess. „Súrnun sjávar eykst mikið með þessum loftslagsbreytingum og getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir hafið, sem skiptir okkur Íslendinga miklu máli." Hann segir landgræðslu einnig mikilvæga við að hjálpa til við að binda koltvísýring úr andrúmslofti.
Umhverfisráðherra segist skilja óþolinmæði þeirra sem vilji að gripið sé til róttækari aðgerða hraðar og fyrr. Ferlið sé hægt, en mjög mikilvægt, því samstaðan um aðgerðir skipti miklu máli. „Við megum hins vegar ekki láta það stoppa okkur í að hrinda í framkvæmd góðum verkefnum. Ef við horfum bara á rafvæðingu samgangna á Íslandi, sem er þjóðhagslega hagstætt fyrir Ísland, þá megum við ekki láta það trufla okkur þó svo alþjóðlegi ferillinn sé svolítið tafsamur, að grípa til slíkra aðgerða," segir umhverfisráðherra.