Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, og frambjóðandi til embættis forseta ASÍ, segir að verkalýðshreyfingin verði að beita sér meira á vettvangi stjórnmála. Fyrir utan hefðbundna kjarabaráttu séu verkefni nýs forseta að hennar mati þrjú; húsnæðismál, félagsleg undirboð og skattbreytingar.

Nýr forseti Alþýðusambands Íslands verður kjörinn á þingi þess 24. til 26.október. Tvö eru í framboði; Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs, og Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins. Rætt var við hana í Morgunútvarpinu á Rás 1 í morgun og má hlusta á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. Rætt var við Sverri í síðustu viku í sama þætti. 

„Ég vil verða forseti ASÍ til að fylgja eftir mínum hjartans málum. Efla verkalýðshreyfinguna. Ég hef minnt á þrjú stór mál sem ég sé sem verkefnin framundan fyrir utan hefðbundna kjarabaráttu verkalýðshreyfingarinnar. Það er að taka á húsnæðismálunum, félagsleg undirboð öðru nafni glæpastarfsemi á vinnumarkaði og skattbreytingar sem kemur inn á jöfnunarhlutverk skattkerfisins. Það eru blikur á lofti um að það sé að dragast í sundur með okkur sem byggjum þetta land,“ segir Drífa. 

Skattar eru ákveðnir á Alþingi. Þarf verkalýðshreyfingin að beita sér meira á hinu pólitíska sviði? „Já hún þarf að gera það. Hún þarf að kynna meira hugmyndir, taka eigið frumkvæði að því að kynna hugmyndir.“ 

Kjarabætur dregnar til baka

Drífa segir að ágætis árangur hafi náðst í kjarasamningum árið 2015. „Þá var horfið frá tveggja til þriggja prósenta hækkun á línuna - stöðguleiki og allir að sýna ábyrgð - þetta sem er búið að hljóma í okkar eyrum í nokkra áratugi nánast.“

Starfsgreinasambandið hafi þá leitt sóknarbaráttu fyrir hækkun lægstu launa. „Sem tókst. Okkur hefur hins vegar ekki tekist að hífa taxtana upp í það sem kostar að lifa. Síðan er það þannig að þær kjarabætur sem hefur verið samið um það hefur verið tekið til baka af ríkinu eða viðbragðsleysi hins opinbera gagnvart til dæmis húsnæðismarkaðinum. Þannig að fólk er í þeirri stöðu að þótt það sé að fá umtalsverðar kjarabætur þá er húsnæðiskostnaður að rjúka upp úr öllu valdi.“

Vinnumarkaðurinn breyst mikið undanfarin ár

Drífa segir að vinnumarkaðurinn í heild hafi breyst gríðarlega undanfarin ár. Mikil áhersla sé lögð á ferðaþjónustu sem sé vinnuaflsfrek og þar sé ekki krafist mikillar menntunar. „Þrýstingur að halda niðri launum þar sem launakostnaður er stórt hlutfall af kostnaði þessara fyrirtækja. Fyrir vinnuaflið í landinu hefur þetta ekki verið sérstaklega góð þróun. Svo þurfum við  fleiri hendur til að vinna verkin en við búum yfir. “

Fleiri breytingar eru í farvatninu, segir Drífa. Loftslagsskýrsla Sameinuðu þjóðanna eigi eftir að hafa gríðarlega áhrif, meðal annars í ferðaþjónustu. „Það verður aukinn þungi á innlenda framleiðslu, minnka kolefnisfótsporin, minnka flutning matvæla milli heimshluta. Ég myndi halda að til langs tíma að þetta myndi fækka störfum í ferðaþjónustu og fjölga störfum í innlendri framleiðslu. Það er eitthvað sem við þurfum að setja okkur í gírinn fyrir.“ 

Breytingar framundan krefjist einnig meiri tæknimenntunar sem vinnumarkaðurinn þurfi að vera undirbúinn undir. 

Lagskiptari vinnumarkaður

Drífa segir það vera áskorun að ná til fólks á erlendum uppruna sem starfar hér á landi. „Síðan er þetta líka þannig að það eru nánast tvær þjóðir, sem eru ekki með mikla snertifleti í landinu. Þú getur komið hingað á vegum starfsmannaleigu og nánast ekki hitt Íslending.“ 

Fólk streymi hingað sem vantar vinnu og hér vantar vinnuafl. „Þessi þrýstingur verður til þess að hér hefur vaxið heil stétt upp, sem er fólk af erlendum uppruna sem er á lægstu laununum.“ 

Drífa segir launamun milli Íslendinga og erlendra starfsmanna ekki hafa verið mikið rannsakaðan. „Við höfum vísbendingar um það að þar sé 30 prósenta launamunur. Við erum ekki að meta menntun þessa fólks þannig að það raðast ekki rétt í laun.“

Drífa segir að þetta sé ekki hávær hópur og ekki kjósendur. Það sé hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að ljá þessu fólki rödd. 

Þarf að vera herskárri

Drífa telur það vera styrk íslenskrar verkalýðshreyfingar að vera ekki of nátengd stjórnmálaflokkum eins og tíðkast á öðrum Norðurlöndum. Verkalýðshreyfingin hér á landi þurfi engu að síður að vera pólitískari, að hennar mati. „Og vera herskárri í því að fá fram breytingar hvort sem það er í gegnum lagasetningu eða hvað sem gagnast launafólki á Íslandi.“

Drífa segir að afturför hafi orðið í bótakerfinu. „Það er eitt af verkefnum verkalýðshreyfingarinnar að endurheimta bótakerfið. Við sjáum það að húsnæðisstuðningur hins opinbera hefur hríðlækkað, barnabætur eru orðnar fátækrastyrkur en ekki aðstoð til fjölskyldufólks.“

Drífa segir að metnað vanti sambærilegan á við sem var þegar almannatryggingakerfið og verkamannabústaðakerfið var sett á fót. „Ef við hefðum haft hagfræðinga þá sem við höfum hér í dag þá hefðum við reiknað þetta að þjóðargjaldþroti. Líka þegar verkamannabústaðakerfið var stofnað þá hefði heyrst hljóð í horni ef við værum með Excel skjölin eins og við erum með í dag. Það vantar stórhug og metnað til að gera þetta betra fyrir alla. Af því að baráttan fyrir hækkun lægstu launa og úrbótum fyrir þá sem bera minnst úr bítum og standa höllustum fæti, það er ekki bara barátta fyrir þau, það er barátta fyrir okkur öll.“

Það sé til dæmis smiðum á Íslandi í hag að verja botninn á vinnumarkaðinum vegna þess að annars njóti þeir ekki afkastanna. Annars sé hægt að ráða til dæmis rúmenskan smið á verkamannataxta. „Og sleppa því að borga þeim sem eru menntaðir fyrir þeirra vinnuframlag.“

Verja þarf áunnin réttindi 

Drífa segir að endurnýjun sé í verkalýðshreyfingunni; aukinn áhugi sé á þátttöku í henni og það sé heilbrigðismerki. Stærsta áskorun nýs forseta ASÍ verði að sameina aðildarfélögin að baki ákveðnum kröfum, sérstaklega til samfélagsbreytinga gagnvart stjórnvöldum og lykilkröfur gagnvart atvinnurekendum.  

Drífa segir að Starfsgreinasambandið ræði kröfugerðina á fundi með Samtökum atvinnulífsins á þriðjudag. Kröfugerðir eigi eftir að koma frá verslunarmönnum og iðnaðarmönnum. Fyrst þá verði hægt að sjá hvernig landið liggur. Hún telur ljóst miðað við áherslur Samtaka atvinnulífsins, sem kynntar voru í bréfi samtakanna nýverið, að verkalýðshreyfingin þurfi að verja áunnin réttindi. „Þar voru þeir beinlínis að leggja til að fækka veikindadögum, auðvelda fólki að koma inn á vinnumarkaðinn. Það er eitt stórt verkefni. Harka á vinnumarkaðinum er það mikil að fólk veikist. Þegar fólk þarf að vinna í tveimur vinnum og nær ekki endum saman, þá gefur sig eitthvað. Ég hef frekar viljað skoða það að vera með manneskjulegri vinnumarkað, til að draga úr veikindum, en ekki fara að tillögum Samtaka atvinnulífsins að fækka veikindadögum því það leysir engan vanda.“  

Alþjóðleg hreyfing sé á bakvið kröfuna um styttingu vinnuvikunnar sem hafi orðið háværari á síðustu árum hér á landi, sérstaklega eftir tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar og ríkisins. Íslendingar vinni mikið en það komi ekki fram í framleiðni.