Verður örugglega söluvænni

Flokkar: Innlent, Mannlíf
Paul Rudd og Emile Hirsch bregða sér í hlutverk þeirra Sveins Ólafs og Hilmars Guðjónssonar í amerísku útgáfunni af Á annan veg.


  • Prenta
  • Senda frétt

Íslenska vegamyndin Á annan veg hefur verið endurgerð í Bandaríkjunum undir heitinu Prince Avalanche og skartar Hollywood-stjörnunnni Paul Rudd í aðalhlutverki. Endurgerðin kom leikstjóra íslensku myndarinnar á óvart.

Bandaríski leikstjórinn David Gordon Green er heilinn á bak við endurgerð myndarinnar en hann hefur gert myndir á borð við Pineapple Express og Your Highness. Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, leikstjóri íslensku myndarinnar, segir að hann hafi ekki átt von á því að þessi litla, íslenska mynd, færi þessa leið. „Nei, það hefur verið ákveðin tíska að endurgera glæpamyndir frá Norðurlöndunum þannig að þetta er ekki beint myndin sem maður átti von á að myndi vekja áhuga,“ segir Hafsteinn sem er staddur á kvikmyndahátíð í Rúmeníu.

Hafsteinn þekkir vel til verka leikstjórans og hann er ánægður með leikarana sem Green valdi til verka. Hann bætir því við að myndin verði eflaust eitthvað öðruvísi í amerísku útgáfunni. „Myndin verður örugglega töluvert breytt. Ég hef reyndar lesið handritið og það er að mörgu leyti mjög nálægt upphaflegu hugmyndinni. En ætli það verði ekki svona amerískara og söluvænna.“

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku