Ljóst er að Páll Magnússon verður ekki forstjóri Bankasýslu ríkisins, enda þótt gengið hafi verið frá ráðningu hans á dögunum. Mikil andstaða er við stöðuveitinguna innan beggja stjórnarflokka og mat manna að trúverðugleiki Bankasýslunnar sé í húfi.
Ráðing Páls Magnússonar í forstjórastólinn hjá bankasýslunni hefur verið harðlega ganrýnd. Ráðherra fór fram á sérstakan rökstuðning og mikill urgur er innan þingflokka beggja stjórnarflokka, sem segja má að hafi kristallast í orðum sem Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, lét falla á Alþingi. „Ráðning forstjóra bankasýslunnar er hneyksli,“ sagði Helgi. Slík ummæli frá formanni efnahags- og viðskiptanefndar úr ræðustóli Alþingis, sem og gagnrýnin almennt hafa breytt stöðunni. Æðstu menn meta það nú sem svo að trúverðugleiki og framtíð Bankasýslunnar sé í húfi.
Það virðist því nokkuð ljóst að Páll sest ekki í forstjórastólinn. Samkvæmt heimildum fréttastofu velta menn hins vegar fyrir sér mögulegum leiðum í stöðunni. Í ljósi þess að þegar er búið að ganga frá ráðningunni væri einfaldast fyrir bankasýsluna að Páll hætti sjálfur við. Þá mætti annað hvort ráða einhvern annan sem sótti um eða auglýsa aftur.
Stjórn bankasýslunnar stefnir að því að hittast eftir helgi og gæti auðvitað skipt um skoðun þá, eða hún gæti einfaldlega sagt af sér og látið nýrri stjórn eftir að losna við Pál. Báðar leiðirnar myndu hins vegar líklega þýða útgjöld fyrir ríkið í formi starfslokagreiðslna eða bóta, færi Páll í mál. Loks gæti Alþingi gripið með einhverjum hætti í taumanna, með þeim rökum að sátt þurfi að ríkja um Bankasýlsuna.