Guðný Nielsen, stjórnarmaður í samtökunum Velbú sem berjast fyrir bættri velferð og lífsskilyrðum búfjár á Íslandi, segir að neytendur eigi skilyrðislaust að fá upplýsingar um hvaðan kjötið sem þeir kaupa kemur. Hún segir að myndir af svínum í þröngum stíum og með legusár komi ekki á óvart.
„Nei, því miður kemur þetta mér og okkur í Velbú ekki á óvart. Það sem okkur kemur á óvart er að þessar myndir hafi loksins litið dagsins ljós. Það var eitthvað sem við vorum ekki vongóð um. Það er frábært, þó þessar myndir sýni hræðilegar aðstæður hjá gyltum á Íslandi,“ segir Guðný.
Hún segir að samtökin hafi verið í samskiptum við Matvælastofnun. Erfitt hafi verið að fá sumar upplýsingar vegna leyndar sem yfir þeim hvíli.
„Eins og kemur fram hjá dýralækni Matvælastofnunar þá neitar stofnunin að gefa upp á hvaða búum þetta er í skjóli einhverra reglna. Það þarf að breyta þessu því við neytendur eigum rétt á því að vita hvað er að gerast inni á búunum því það erum við sem erum að neyta þessa kjöts,“ segir Guðný Nielsen.
Hún segir að það sé ekki nóg að nafngreina þau bú sem fari illa með dýrin því þegar neytendur kaupa kjötið í búðum eru engar upplýsingar um hvaðan það kemur. Krafan sé því að allt kjöt sé upprunamerkt.
„Okkur neytendum er meinað að fá upprunamerkingu. Við höfum krafist þess í mörg ár að fá upprunamerkingar á kjötvörum í verslunum. Við vitum að í sláturhúsunum er upprunamerkingu og frá þeim kemur kjötið í búðirnar. Það er eitthvað þar sem kemur í veg fyrir þetta,“ segir Guðný.
Nánar er fjallað um þetta mál í Speglinum.