Íslenskir stjórnmálaflokkar virðast á einu máli um að draga eigi úr vægi verðtryggingar. Framsóknarflokkurinn, sem hélt flokksþing nú um helgina, setur málið á oddinn.

Flokkurinn setur lausn á skuldavanda heimilanna sem skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórn. Verðtryggingin er hluti af slíkri lausn, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins um helgina. Aðrir flokkar vilja einnig draga úr eða afnema verðtrygginguna.

Fyrir utan háar skuldir heimilanna og hæga eignamyndun, hefur verðtryggingunni verið kennt um að erfiðara sé að beita hagstjórnartækjum en ella. Ef stýrivextir hækka til dæmis, hækka afborganir af óverðtryggðum lánum strax. Og þá er líklegt að fólk dragi úr neyslu. Hagvaxtartækið býtur mjög vel. En ef lán eru verðtryggð, finnur fólk síður fyrir breytingunum. fólk greiðir áfram raunvexti, en verðbætur eru teknar að láni - greiðast síðar. Már Wolgang Mixa, kennari við Háskólann í Reykjavík, segir þetta einn stærsta ókostinn við verðtryggð lán. Þá myndu óverðtryggð lán myndu neyða fólk til að vera agaðra í fjármálum - safna fyrir fyrstu útborgun fyrir íbúð; lifa spart ef hart er í ári og svo framvegis. En á móti kemur að ef vextir myndu hækka mjög skart, myndi greiðslubirgði mjög skuldsettra heimila hækka svo mikið, að þau færu í þrot. Að minnka hlut verðtryggðra lána er þó engin töfralausn, að sögn Más. Önnur einföld leið til að bæta eignamyndun og draga úr vanskilum, er að stytta lánstíma úr fjörutíu árum í tuttugu.