„Venjulegt fólk á líka að geta búið í borgum“

19.03.2017 - 17:17
Erlent · Danmörk · Evrópa
Borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn verja rúmum tveimur milljörðum króna á ári til að bæta reiðhjólasamgöngur í borginni. Á næstu 20 árum ætla yfirvöld að verja rúmum 300 milljörðum til þess að gera Kaupmannahöfn ennþá grænni með því að virkja allt það vatn sem til fellur í úrhelli og óveðri - sem hingað til hefur bara haft skaða í för með sér.

Hringjabrúin sem Ólafur Elíasson hannaði og tekin var í notkun í Kaupmannahöfn fyrir hálfu öðru ári er fjölfarin af gangandi og hjólandi vegfarendum. Morten Kabell, borgarstjóri tækni- og umhverfismála í borginni segir að brýrnar í Kaupmannahöfn ýti mjög undir vistvænar samgöngur.

„Mörg þúsund hjólreiðamenn nota brýrnar í Kaupmannahöfn á hverjum einasta degi. Okkar reynsla er sú að þær brýr sem við höfum byggt meðfram höfninni og yfir höfnina séu mun betur nýttar af hjólreiðamönnum en við reiknuðum með. Ég held að allt að sjö þúsund manns hjóli yfir þessa brú á hverjum degi.“

Um fjölförnustu brýrnar hjóla 25 þúsund manns á dag. Morten undirstrikar að það sé engin tilviljun að íbúar Kaupmannahafnar hjóli svo mikið, borgaryfirvöld hafi meðvitað gert hjólreiðar að bestu og auðveldustu aðferðinni til að komast leiðar sinnar í borginni. Hann segir auðvelt að gefa borgaryfirvöldum í Reykjavík gott ráð til að auka veg hjólreiða í borginni.

„Það þarf að gera fólki auðvelt að hjóla. Sé það gert sest fólk á hjólhesta sína. Ég er vanur að segja að í Kaupmannahöfn hafi þrennt skipt miklu máli; innviðir, innviðir og innviðir.“

Í Kaupmannahöfn sjálfri búa um 760 þúsund manns og þar fjölgar íbúum um 1000 í hverjum mánuði. Þetta kallar á stöðugt viðhald og betrumbætur á samgöngukerfi borgarinnar. Til að mynda er verið að leggja stórt neðanjarðarlestarnet í borginni sem kemur til með að kosta andvirði um 500 milljarða íslenskra króna og umtalsverðum fjármunum er sömuleiðis varið í að bæta reiðhjólasamgöngur.

„Við leggjum um 100 til 150 milljónir danskra króna á ári í hjólreiðamannvirki hér í Kaupmannahöfn,“ segir Morten. Hann segir að það sé mikilvægt að byggja íbúðarhúsnæði í sjálfri borginni sem venjulegt launafólk hafi ráð á.

„Lögreglumaðurinn, bréfberinn og kennarinn þurfa einnig að geta búið í miðri Kaupmannahöfn. Það á ekki að senda þetta fólk í úthverfin. Þess vegna erum við að byggja íbúðarhúsnæði, mörg þúsund íbúðir eru nú í byggingu í Kaupmannahöfn. Við erum borg í miklum vexti.“

Stórfelldar sumar- eða haustrigningar hafa valdið miklum skaða í Kaupmannahöfn, nánast árlega á síðustu árum.

Morten segir að árið 2011 hafi komið 2ja stunda úrhelli sem hafi valdið tjóni upp á 7 milljarða danskra króna í miðborg Kaupmannahafnar. 

Það hafi orðið kveikjan að stóru loftslagsverkefni sem kosti andvirði rúmlega 300 milljarða íslenskra króna á næstu 20 árum. Það á ekki bara að draga úr skaða vegna flóða og mikilla rigninga, það á að nýta vatnið með jákvæðum hætti.

„Þess vegna erum við með 300 verkefni þar sem við nýtum yfirborðsvatnið. Við gerum Kaupmannahöfn umhverfisvænni, sjáum til þess að hér séu tré, runnar og græn svæði sem geta drukkið í sig vatnið til þess að það flæði ekki inn í kjallara fólks og skemmi fasteignir.“

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV