Það hafa komið upp tvö tilvik hér á landi að undanförnu þar sem kviknað hefur í rafbílum því að venjuleg framlengingarsnúra var notuð til að hlaða þá. Jóhann Ólafsson, fagstjóri rafmagnsöryggissviðs hjá Mannvirkjastofnun, segir ekki öruggt að stinga rafbílum í samband í venjulegar innstungur. Hann hvetur fólk eindregið til að fá sér hleðslustöð og að fá faglærðan rafverktaka til að fara yfir málin á heimilinu áður en rafhleðsla hefst.

Rafbílum hér á landi hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum og eru nú um 9.400 bílar með rafhleðslutengli í notkun. Fólk hefur verið hvatt til þess að hlaða bílana heima enda ekki á vísan að róa að komast að í hleðslustöðvum úti í bæ. 

„Fólk hugsar oft með sér að það noti bara heimilistengilinn. Þetta er ekki svo einfalt. Hann er ekki gerður til að þola svona mikinn straum,“ sagði Jóhann í viðtali í Samfélaginu á Rás 1 í dag. Hann segir að það geti gengið að nota venjulega innstungu heima en að öryggisins vegna borgi það sig ekki. Það taki átta til tíu tíma að hlaða bílana og að venjulegar innstungur séu ekki hannaðar fyrir svo mikil afköst. 

Jóhann segir eindregið mælt með því að fólk fái sér sérstaka rafhleðslustöð þegar fjárfest er í rafbíl. Hún kosti um 120.000 til 130.000 krónur og að verðið eigi ekki að þurfa að vera fyrirstaða þegar fólk sé hvort eð er að fjárfesta í bíl sem kostar nokkrar milljónir. Þá mælir hann einnig með því að fagmaður setji rafstöðina upp. Það er þó ekki nóg að kaupa hleðslustöð, heldur þarf hún að vera með sér „grein“ líkt og eldavélar og sér öryggisliði, það er lekastraumsrofa og bilunarstraumsrofa. Slíkt geti skipt sköpum komi upp bilun.

„Það getur gerst að það leki straumur úr batteríi bílana inn í raflögnina og ef við erum ekki með sér liða til þess að nema þennan straum þá er voðinn vís vegna þess að þessi straumur, hann getur ruglað liðann sem fyrir er,“ segir Jóhann. Fólk eigi alls ekki að kaupa sér venjulegar framlengingarsnúrur til að nota við hleðslu rafbílanna. Dæmi eru um það í Noregi að innstungur hafi brunnið því þær hitni um of.

Nánar má fræðast um hleðslu rafbíla á vef Mannvirkjastofnunar