Nicolás Maduro, forseti Venesúela, útilokar ekki borgarastyrjöld í landinu og segir að Donald Trump verði blóðugur upp að öxlum ef Bandaríkin skipta sér af innanríkismálum landsins. Venesúela verði nýtt Víetnam fyrir Bandaríkin. Maduro varð ekki við kröfu Evrópusambandsins um að halda nýjar forsetakosningar í landinu og í dag hafa mörg Evrópuríki viðurkennt Juan Guaidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem forseta landsins til bráðabirgða.
Tugir þúsunda mótmæltu Nicolás Maduro, forseta Venesúela, í höfuðborgum Suður-Ameríku og Evrópu um helgina. Mörg þúsund stuðningsmenn Maduros komu saman um helgina í Caracas, höfuðborg Venesúela, til að sýna forsetanum stuðning. Tugir þúsunda mótmæltu honum hins vegar einnig í Caracas og lýstu stuðningi við leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Juan Guaidó. Lögfræðingurinn og stjórnarandstæðingurinn Stalin Gonzalez vildi þakka þjóðum heims og Evrópusambandinu fyrir stuðninginn í baráttu fyrir frelsi, lýðræði og bættum lífskjörum.
Trump útilokar ekki beitingu hervalds
Vesturveldin styðja yfirleitt Juan Guaidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela, sem er þingforseti og sjálfskipaður forseti Venesúela. Evrópusambandið hefur krafist forsetakosninga og Donald Trump hefur verið harðorður í garð Maduros. Margaret Brennan hjá CBS spurði Trump hvort það kæmi til greina að beita hervaldi í Venesúela. Trump útilokaði það ekki, beiting hervalds væri möguleg.
Venesúela verður nýtt Víetnam
Nicolás Maduro var ekki síður harðorður í garð Trumps í viðtali við spænska blaðamanninn Jordi Évole um helgina. Hann sagði Trump að hætta þessu rugli, hann væri að gera mistök sem leiddu til þess að hann yrði blóðugur upp að öxlum. Deilur verði ekki leystar nema með samtali og virðingu. Stríðsæsingur Bandaríkjamanna gæti leitt til annars „Víetnamstríðs“ í Rómönsku Ameríku.
Glundroði, glæpir, fátækt og angist
Í viðtalinu á CBS sagðist Trump hafa hafnað beiðni Maduros um beinar viðræður. Hræðilegir hlutir hefðu gerst í Venesúela, landi sem hefði verið það auðugasta í þessum mikilvæga heimshluta. Þar ríki nú glundroði, glæpir, fátækt og angist. Fólkið í landinu hafi risið upp og þar logi allt í mótmælum.
Evrópuríki lýsa yfir stuðningi við Guaidó
Juan Guaidó sem er forseti þingsins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar lýsti sjálfan sig forseta til bráðabirgða 23. janúar. Hann nýtur stuðnings vesturveldanna og flest ríki Norður- og Suður-Ameríku styðja Guaidó. Evrópusambandið krafðist nýrra forsetakosninga og gaf Maduro frest þar til í gær til að boða til kosninga. Maduro varð ekki við þeirri kröfu og í dag hafa Evrópuríkin eitt af öðru lýst yfir stuðningi við Guaidó. Fyrstur til þess var Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar.
Neyðaraðstoð og valdarán
Juan Guaidó hefur beðið þjóðir heims að senda mannúðaraðstoð til landsins og fullyrðir að þrjú hundruð þúsund manns séu við dauðans dyr, berist ekki neyðaraðstoð. Maduro hefur hafnað þessu alfarið og segir þetta ekkert annað en tilraun Guaidós til valdaráns. Venesúela sé ekki land betlara og því verði ekki tekið við þessari neyðaraðstoð. John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, segir að nú sé unnið hörðum höndum að því að fylla gáma af næringarríkum mat handa nauðstöddum börnum. Ekki er ljóst hvernig neyðaraðstoð verður komið til skila. Guaidó stjórnar engu landsvæði í Venesúela en segist ætla að koma upp móttökustöðvum í nágrannaríkjunum. Þar búa margir Venesúelar sem hafa flúið land en að auki ætlar Guaidó að þrýsta á herinn að hleypa þessum varningi inn í landið.
Afstaða hersins skiptir sköpum
Venesúela var eitt auðugasta land veraldar vegna gríðarlegra olíuauðlinda. Eftir áralanga óstjórn ríkir þar djúpstæð efnahagskreppa, óðaverðbólga og mikill skortur á nauðsynjum á borð við mat og lyf. Milljónir hafa flúið til nágrannalanda. Þrjár milljónir, segja Sameinuðu þjóðirnar, sem gera ráð fyrir að flóttamennirnir verði orðnir fimm milljónir áður en árið er liðið. Enginn veit hvað gerist í Venesúela en ljóst er að afstaða hersins skiptir þar miklu máli. Hingað til hefur Maduro getað reitt sig á stuðning hersins en Guaidó hefur bæði leynt og ljóst biðlað til hersins um stuðning. Maduro heimsótti hermenn í gær og hélt yfir þeim innblásna ræðu. Hann sagði að óvinir Venesúela vildu lama þjóðina og efna til borgarastyrjaldar í landinu en með tilstuðlan hersins ætli hann sér að tryggja frið í landinu.