Íslenska óperan frumsýndi á dögunum La traviata í leikstjórn Oriol Tomas í Eldborgarsal Hörpu. Þrátt fyrir að finna örlitla vankanta á sviðssetningunni telur María Kristjánsdóttir, leiklistargagnrýnandi Víðsjár, að skipan í tvö aðalhlutverkin geri það að verkum að áhorfendur njóti þessarar vinsælustu óperu veraldar til fulls.


María Kristjánsdóttir skrifar:

Það var árið 1853 að La traviata eða sú afvegaleidda eða bersynduga eftir Giuseppe Verdi var frumsýnd í Feneyjum. Aðalpersónan hin berklaveika, fylgdarkonan Violetta Valery á fyrirmynd sína í Kamelíufrúnni, skáldsögu Alexanders Dumas yngri en hana hafði Verdi bæði lesið og séð á leiksviði. Sterk frelsisþrá hans sjálfs og einkalíf hefur ef til vill leitt Verdi til þess að takast á alveg nýjan hátt við þetta þema um ást sem bíður skipbrot vegna þjóðfélagsaðstæðna og leiða inn á óperusviðið í fyrsta sinni kvenpersónu sem var nógu rík og sjálfstæð til að ráða yfir sínu eigin lífi og mannanna sem þyrpast í kringum hana.
 
Veislur Violettu eru hápunktur samkvæmislífsins í París þar sem hún syngur að hún vilji alltaf vera frjáls, Sempre Libera, til að gera það sem hana langar til. Það breytist hins vegar þegar hinn föngulegi Alfredo mætir á staðinn og hún verður í fyrsta skipti ástfangin. Hún ákveður að flýja með hann út í sveit í borgaralega einkasælu en brátt sækir hið tvöfalda siðgæði þjóðfélagsins hana heim í líki föðurs Alfredos. Violetta ákveður þá að fórna ást sinni fyrir heill fjölskyldu elskhugans og snýr aftur í gleðskapinn í París án Alfredo. Djúpt særður niðurlægir hann hana opinberlega. Þegar hann loks kemst að hinu sanna snýr hann iðrunarfullur aftur til baka til Violettu en þá er hún deyjandi.

Þessi ljúfsára, fagra ópera sem í upphafi vakti hneykslan og fordæmingu varð að lokum ein vinsælasta ópera allra tíma og er reglulega sýnd í flestum löndum, einnig hér á landi. Það þarf því nokkra hugmyndaauðgi til að koma óperuáhugafólki á óvart í sviðsetningu hennar. Það gera þeir ekki heldur, leikstjórinn Oriol Tomas og leikmyndateiknarinn Simon Guilbault í nýrri sýningu Íslensku óperunnar. Hugmyndir sem þeir leggja til grundvallar eru hefðbundnar og gefa fæstar nokkra nýja sýn á verkið og sumar jafnvel draga úr áhrifamætti þess. Guilboult býr til nokkurs konar glerþök í risahæð með gylltum kúplum efst og falla þökin langt niður eins og veggir með blaðlaga munstrum, sem vísa ef til vill í Art Nouveau og galleriurnar í París. Lýsing getur breytt þeim í steint gler eða mjúka hreyfanlega blúndu. Það má dást að fegurð þeirra sem sjálfstæðri einingu og einnig hvernig þeir endurkasta myndbandi á nýstárlegan hátt. En þessi ofhlaðni rammi orkar fyrst og fremst sem skraut og þrýstir öllum leik fremst á sviðið. 

Pallur, tröppur, fyrir framan og neðan veggi bjóða sjaldnast upp á fallegar, merkingarfullar lausnir í leik og staðsetningum, skýrast kemur það fram í senu Violettu og Germonts þar sem hann með staðsetningu og búningi er sviptur öllu vægi föðurveldisins. Búningar gefa annars misvísandi til kynna að við séum stödd í tíma einhvers staðar á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Kór veislugesta þarf mest að hreyfa sig í þrengslum á hægri helmingi þaðan sem allar innkomur eru líka, þvert á allan myndlestur okkar. Samvinna hljómsveitarstjórans Bjarna Frímanns Bjarnasonar og leikstjórans í flæði hreyfinga var oft með ágætum en þó með hnökrum og tókst ekki eins vel og í Tosca. En við vitum auðvitað að Eldborgarsviðið er erfitt og mikil glíma fyrir leikmyndateiknara og leikstjóra, að íslenska óperan er ung, við áheyrendur því jákvæðir og flestir íhaldsamir.
 
Enginn af þessum þremur þáttum varð þess þó beinlínis valdandi að ég naut þess samt að horfa og hlusta á La traviata. Það gerði í fyrsta lagi skipanin í tvö aðalhlutverk verksins og vinna leikstjóra með þeim. Það er Herdís Anna Jónasdóttir sem syngur hlutverk Violettu. Hún er eðlilega glæsileg, þokkafull í hreyfingum og ber með sér greind og innri styrk sem gerir vald hennar yfir karlmönnum skiljanlegt en tekst um leið að miðla  þeirri einsemd og viðkvæmni sem dylst á bak við fjarlæga selskapsgrímuna. Tónlist Verdis lyftir henni og hyllir og áhorfandi samsamar sig fallegri frábærlega skólaðri röddinni í þrá hennar, ást og einsemd. (Þar hjálpar sennilega til að hún er ekki kólóratúrasópran eins og flestar þær söngkonur sem valdar eru í þetta hlutverk.) Að það sé óhjákvæmilegt að Violetta festi ást á andstæðu sinni, hinum tilfinningasama Alfredo, sýnir Elmar Gilbertsson með nærveru allri og sinni fallegu rödd. Og svo er það auðvitað bara Verdi kallinn sjálfur sem heillar með þessari melódísku hrífandi tónlist sem endalaust er hægt að ylja sér við.