Húmor og mannleg samskipti leika stærsta hlutverkið í kvikmyndinni Bakk sem er vel heppnuð og hugguleg sumarmynd. Hlýleg og skemmtileg, og fyrirtaks afþreying fyrir fólk á flestum aldri, sagði Hulda G. Geirsdóttir, kvikmyndarýnir Popplands.

Í myndinni segir af Gísla, leikara sem er með allt niðrum sig í bæði vinnu og einkalífi, sem fær þá flugu í höfuðið að fylgja í fótspor föður síns og bakka í kringum landið, til stuðnings langveikum börnum. Þetta óskipulagða ferðalag býður auðvitað upp á alls kyns vesen og ævintýri sem áhorfendur geta skemmt sér yfir.

Hulda sagði leikarana standa sig vel og þeir Gunnar Hansson og Víkingur Kristjánsson væru sérstaklega góðir sem æskuvinirnir Gísli og Viðar, og Saga Garðarsdóttir klæðskerasniðin í hlutverk sveimhugans Blæs sem slæst í för með þeim félögum. Tæknivinna er öll til fyrirmyndar og útkoman er falleg og skemmtileg vegamynd þar sem breyskleiki mannsins og mikilvægi vináttunnar eru í forgrunni. Bakk er bráðskemmtileg afþreying sem hægt er að mæla með.

Stjörnur: 4 af 5