Vel gekk að smala Fagraskógarfjall í Hítardal í gær, þrátt fyrir berghlaupið sem varð í fjallinu sumar en skriðan breytti landslagi dalsins töluvert og stíflaði meðal annars ána. Fyrstu réttir ársins voru í gær og í dag er réttað í Kaldárbakkarétt í Kolbeinsstaðahreppi. Safnið telur um þrjú til fjögur þúsund fjár. Kristján Ágúst Magnússon, á Snorrastöðum, var að draga í dilka rétt fyrir hádegi.

„Það er gott veður og það gengur bara vel þrátt fyrir þessi skriðuföll í sumar,“ segir Kristján. Heimtur virðast vera góðar en hann segir að líklega hafi eitthvert fé farið undir skriðuna stóru.

Margt er um manninn í réttunum í dag. „Það er haugur af liði, fullt af aðkomufólki, ferðamönnum og öðrum,“ segir Kristján. Réttirnar hófust klukkan 11 í morgun og á Kristján von á að þeim ljúki um á milli klukkan 14 og 15 í dag.