Laugarneskirkja er mjög illa farin vegna leka og raka, starfsfólk hennar hefur veikst vegna slæmra loftgæða og gripið hefur verið til þess ráðs að flytja safnaðarstarfið úr kirkjunni. Formaður sóknarnefndar segir að ekki séu til peningar til að ráðast í nauðsynlegt viðhald, sem kostar minnst 30 milljónir króna.
Laugarneskirkja er ein af merkilegri kirkjum landsins. Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði kirkjuna, hafist var handa við að byggja hana árið 1940 og hún var vígð árið 1949. Kirkjan má hins vegar muna sinn fífil fegurri og undanfarin ár hefur byggingin látið mjög á sjá.
„Ástandið er ekki gott,“ segir Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, formaður sóknarnefndar Laugarneskirkju. „Það er mikill leki sem hefur verið viðvarandi hérna undanfarin tíu ár, það er kominn raki í alla veggi og það eru miklar skemmdir í veggjunum líka. Og rakinn er orðinn það mikill að loftgæðin í húsinu eru orðin mjög slæm. Fyrir utan að kirkjan er búin að láta mikið á sjá eins og allir sjá sem keyra eða ganga framhjá þessari fallegu byggingu. Þannig að hún er komin á tíma varðandi viðhald, fyrir löngu síðan.“
Og ástandið er farið að bitna á starfsfólki hússins.
„Starfsfólk hefur kvartað yfir loftgæðunum og fundið fyrir ýmsum einkennum. Líka fólk sem kemur hingað, það kvartar,“ segir Eva Björk Valdimarsdóttir, starfandi sóknarprestur í Laugarneskirkju. „Þannig að við sáum okkur ekki annað fært en að færa safnaðarstarfið annað og höfum fengið inni hjá nágrönnum okkar, kirkjum og öðrum stofnunum í samfélaginu. Hér er öflugt safnaðarstarf þannig að við þurftum að færa mikið og við finnum að sjálfsögðu fyrir því.“
Hefur fólk orðið veikt?
„Já. Fólk hefur verið veikt hérna,“ segir Eva Björk, en verkfræðistofa hefur verið fengin til að mæla loftgæði í húsinu og er von á niðurstöðum fljótlega.
„Eigum ekki þennan pening“
Sóknarnefndin ber ábyrgð á viðhaldi kirkjunnar. Aðalbjörg segir að tekjur frá sóknargjöldum dugi rétt svo til að standa straum af rekstrarkostnaði. Ytra byrði kirkjunnar er friðað og viðhald þess því nokkuð kostnaðarsamt.
„Þannig að þetta mun kosta allavega 30 milljónir, viðhald að utan og viðgerðir. Við eigum ekki þennan pening,“ segir Aðalbjörg.
Sjáið þið fyrir ykkur að einhverjir utanaðkomandi aðilar kæmu að þessu, ríki, borg eða þjóðkirkjan?
„Það kæmi sér mjög vel og færi mjög vel á því. Þetta er sögufræg bygging og Guðjón Samúelsson byggði þetta hús. Þannig að ég veit að þetta hús á sérstakan stað í hugum og hjörtum margra. Og okkur ber að halda því við,“ segir Aðalbjörg.