Sigurður Ingi Jóhannson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, lagði áherslu á það í ræðu sinni í umræðum eftir stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld að góðar samgöngur væru forsenda blómlegs mannlífs. Hann sagði að rík áhersla væri lögð á að auka viðhald í vegakerfinu enda hafi þörfin aldrei verið meiri en nú.

„Ljóst er að mikið verk er óunnið við að byggja upp samgöngukerfið og færa til ásættanlegs horfs. Fjármagn hefur verið stóraukið en í ár fara 12 milljarðar til viðhalds og lagfæringa samanborið við 5,5 milljarða 2016,“ sagði Sigurður Ingi. Þá nefndi hann að í sumar hafi fjórum milljörðum verið bætt við gildandi áætlun þessa árs til að koma í veg fyrir skemmdir vegna aukins umferðarþunga. Gert sé ráð fyrir 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára og í heildina sé gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu fimm árum.

„Þá er verið að skoða útfærslu á því hvernig hægt er að stórauka þá upphæð sem rynni til nýrra framkvæmda vegakerfisins með sérstöku notendagjaldi af einstökum mannvirkjum svo þau verði að veruleika,“ sagði ráðherrann í ræðu sinni. 

Ríkisstjórnin kynnti í vikunni aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og sagði Sigurður Ingi að orkuskipti, sem eru meðal aðgerða sem ráðast á í, eigi eftir að fjölga rafbílum stórkostlega og uppfylla um leið markmið í loftslagsmálum. „Ánægjulegt er að loftlagsmarkmið og efnahagslegir hvatar fara saman. Ódýrara er að reka rafmagnsbíla, jafnframt er það jákvætt að skipta út aðfluttri orku fyrir hreina innlenda orku. Til þess þarf að tryggja aðgengi að orku fyrir rafknúin ökutæki um land allt.“

Hægt er að hlusta á ræðuna í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.