Veitur byggja sínar áætlanir á spám um fjölgun íbúa og skipulagsáætlunum sveitarfélaga og notkun á heitu vatni hefur vaxið meira en þeim vexti nemur. Þetta kom fram í viðtali við Eirík Hjálmarsson, upplýsingafulltrúa Orkuveitu Reykjavíkur, í Speglinum í gær.
Frost hefur verið alla þessa viku víða um land og því hafa Veitur þurft að grípa til þess ráðs að takmarka aðgang stórnotenda, þar á meðal sundlauga, að heitu vatni á nokkrum stöðum. Sömuleiðis hefur almenningur verið hvattur til að fara sparlega með heita vatnið. Notkunin eykst þegar kalt er í veðri en á hádegi í gær dró úr þeirri aukningu.
„Við byggjum okkar spá á spám um íbúafjölda, á skipulagsáætlunum sveitarfélaga um uppbyggingu húsnæðis, þar á meðal hótela, sagði Eiríkur í Speglinum. „Síðan bara vex heitavatnsnotkunin meira heldur en þessum vexti nemur og við sáum ákveðin merki um það fyrir ári og þá flýttum við næsta þrepi af því að hitaveitan er ekki eins og þú takir inn smátt og smátt heldur er þetta í þrepum og viðbót við heitavatnsframleiðslu í Hellisheiðarvirkjun verður tilbúin í haust.“ Hann segir að horft sé langt fram í tímann hjá Veitum og að íbúar á höfuðborgarsvæðinu þurfi ekki að óttast heitavatnsskort á næstunni.
Eiríkur segir að frostið hafi ekki komið Veitum á óvart. Hluti af ráðdeild í rekstri fyrirtækisins sé að fjárfesta á réttum tíma. „Það kostar 100 milljónir á ári að vera með tilbúna stækkun á varmastöðinni án þess að hún nýtist og við erum prýðilega undir þetta búin.“ Það sem sé öðruvísi núna sé að fólk hafi verið látið vita og það hafi brugðist vel við og minnkað notkun á meðan frostið varir.
Sundlaugum á Hellu, Laugalandi og Hvolsvelli hefur verið lokað um óákveðinn tíma þar til hlýnar í veðri. Vandræði hafa verið hjá Rangárveitum við að finna vatn, að sögn Eiríks. „Við boruðum ansi djúpa holu 2017 og það var ekki fyrr en með sérstökum dælingar aðgerðum í vetur að hún er farin að sýna einhvern lit. Þar höfum við hreinlega verið í vandræðum með að finna heitt vatn.“
Hluta lauga og potta sundlaugarinnar í Þorlákshöfn hefur sömuleiðis verið lokað. Eiríkur segir að einkenni þeirrar hitaveitu sé að þar sé talsvert af vatni en einnig mjög öflugt atvinnulíf sem hafi verið byggt í kringum jarðhitann. Eftirspurn eftir vatni hafi vaxið ört og Veitur ekki getað haldið í við hana.
Í Vesturbæjarlauginni í Reykjavík var gripið til þess ráðs í gær að loka vaðlaug og tveimur heitum pottum.
Norðurorka hvatti fólk í gær til að fara sparlega með vatnið. Helgi Jóhannesson, framkvæmdastjóri, segir að tíðin hafi oft verið kaldari en að fram undan virðist vera erfiður kafli. „Við boruðum á Hjalteyri í sumar, stóra holu, og á meðan við boruðum hana urðum við að stoppa dælurnar sem unnu úr því jarðhitakerfi í þrjár vikur. Þá tókum við vatn á svokölluðu Laugalandssvæði. Það hafa verið vetrarbirgðirnar okkar þannig að við gegnum inn í haustið með lægra vatnsborð þar en við erum vön.“ Staðan á vatnsmagninu sé núna eins hún sé vanalega í lok febrúar eða byrjun mars. „Þannig að við förum inn í veturinn með frekar lítið vatn þar.“
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.