Vatnamýs í Þistilfirði

13.07.2017 - 10:39
Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrustofa Norðausturlands
Vart hefur orðið við svokallaðar vatnamýs á bökkum Kollavíkurvatns í Þistilfirði. Ábúendur á bænum Borgum tóku fyrst eftir sérkennilegum kúlum við vatnið í fyrrasumar og nú eru kúlurnar komnar aftur. Starfsmenn Náttúrustofu Norðausturlands hafa staðfest að þetta eru vatnamýs.

Vatnamýs (e. false lake balls) eru fremur sjaldgæf fyrirbæri á Íslandi en þær myndast þegar mosi veltist í ferskvatni vegna ölduhreyfinga í stöðuvötnum eða vegna strauma í straumvötnum. Við þetta myndast vöndlar sem oft verða kúlulaga en geta líka verið sívalningar eða sporöskjulaga.

Geta bæði myndast í ferskvatni og sjó

Á vef Náttúrustofu Norðausturlands segir að vatnamýs finnist yfirleitt við vatns- eða árbakka en í sumum tilfellum hafa þær þó fundist í sjávarfjörum og hafa þá borist til sjávar með straumvötnum. Þær geta verið allt frá 20 upp í 195 millimetrar að þvermáli eða lengd. 

Tvennskonar afbrigði af vatnamúsum

Til eru tvennskonar afbrigði af vatnamúsum; annars vegar vöndlar úr dauðum eða deyjandi mosa og hins vegar úr lifandi mosa. Fyrstu heimildir hér á landi um vatnamýs úr dauðum mosa eru frá árinu 1969. Þá fundust vatnamýs í tveimur vötnum; Holtavörðuvatni á Holtavörðuheiði og Hádegisvatni í Bitrufirði. Í lok árs 2015 voru fundarstaðirnir orðnir sautján, þar af fimm í Þistilfirði. Vatnamýs úr lifandi mosa hafa einungis fundist einu sinni hér á landi, við bakka Hraunsfjarðarvatns á Snæfellsnesi árið 2006.

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV