Varnarveggir sem settir hafa verið upp beggja vegna Miklubrautar hafa ekki verið árekstraprófaðir og eru ekki vottaðir. Sérfræðingur segir veggina geta verið stórhættulega.

Vegagerðin hefur ákveðið að fjarlægja ákveðna tegund girðinga meðfram umferðargötum á höfuðborgarsvæðinu, eftir banaslys á Miklubraut á laugardag, þegar maður kastaðist út úr bíl og hafnaði á slíkri girðingu. Ólafur Guðmundsson, tæknistjóri alþjóðlegu vegaöryggissamtakanna EuroRAP á Íslandi, gerir athugasemdir við öryggi vegfarenda víðar á Miklubraut, þá sérstaklega á kaflanum til móts við Miklatún þar sem miklar framkvæmdir hafa staðið yfir. Þar gerir Ólafur athugasemdir við hlaðinn varnarvegg.

„Fyrst og fremst það að þetta er bara hleðslugrjót sem er sett inn í svona vírbala. Og þetta er ekki viðurkennt sem árekstrarvæn vara. Og frá framleiðanda er meira að segja talað um það að ef þú notar þetta við götu áttu að hafa vegrið innan á,“ segir Ólafur.

Hver er hættan?

„Fyrst og fremst það að þetta springur í sundur og grjótið getur skotist inn í bílinn sem keyrir á þetta eða hinsvegar inn á göngustíginn á bakvið okkur.“

En vegrið myndi leysa vandann?

„Vegrið myndi leysa þetta. Og þetta er gert þannig til dæmis í Garðabænum, þar er svona hleðsla, með vegrið fyrir innan. Reykjavíkurborg viðurkennir að þetta sé ekki besta lausnin en þeir ætla samt ekkert að gera í því.“

Ólafur gerir einnig athugasemdir við hvernig málum er háttað sunnanmegin götunnar.

„Síðan er það þessi veggur hér. Hann er með þessum stalli. Hann er hraunaður og með skörpum brúnum. Og fyrir bifhjólamann sem lendir utan í þessum vegg, það verður ekki góð útkoma.“

Er pláss fyrir vegrið hér?

„Nei eiginlega ekki. Veggurinn er svo nálægt götunni að það er ekki lengur pláss fyrir vegrið þarna fyrir utan. En úr því að menn settu steyptan vegg hérna, þá átti hann bara að vera sléttur og rúnaður að ofan og uppfylla þá staðla sem menn gera um steinsteypt vegrið.“

Best að lækka hraðann

Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, vildi ekki veita viðtal um málið í dag. Hann sagði hins vegar í skriflegu svari um málið í borgarráði í september að hvorugur veggurinn hafi verið árekstrarprófaður, eða fengið vottun sem eftirgefanlegur vegbúnaður. Þá hafi sérfræðingar ekki talið ástæðu til að setja upp vegrið til að varna því að bílar aki á veggina. Það sé hins vegar vilji borgaryfirvalda að lækka hámarkshraða á þessum stað úr 60 kílómetrum á klukkustund í 50. Besta öryggisaðgerðin sé að hægja á umferð eins og vonir standa til með þessari framkvæmd.

Ólafur segir sérstaklega mikilvægt að huga að öryggi við Miklubrautina.

„Miklabrautin er slysamesti vegur landsins. Á 6 ára tímabili frá 2009 til 2014 urðu hér 29 alvarleg slys, en ekkert banaslys fyrr en nú. Þetta eru 6,2% af öllum alvarlegum slysum á landinu á þessu sex ára tímabili.“