Varmadælur margfalda varmaorku úr rafmagni

25.11.2013 - 13:14
Mynd með færslu
Svokallaðar varmadælur geta gert húshitun á köldum svæðum mun ódýrari og um leið sparað ríkinu niðurgreiðslu á húshitun. Íslenskar rannsóknir sýna að raforka sem fer á varmadælu getur skilað allt að fjórfalt meiri orku í formi varma.

Varmadæla kann við fyrstu sýn að minna á eilífðarvél en galdurinn liggur í því að dælan nýtir ósýnilega varmaorku sem finnst í miklum mæli utandyra. Þó það líti út fyrir að vera kalt úti er langt frá því að þar sé alkul. Alkul er við mínus 273 gráður og því er ljóst að loft sem er 0 gráðu heitt inniheldur talsverða varmaorku. Til eru vökvar sem sjóða við útihita og þá má nýta til að raka saman varma úr útilofti og færa inn í hýbýli manna.

Hagkvæmnin liggur í því að varmadælan gengur fyrir rafmagni en með því að safna einnig orku úr útilofti skilar hún frá sér mun meiri orku í formi varma en hún notar í formi rafmagns.

Varmadælur voru meðal annars til umræðu á málstofu sem Efla verkfræðisstofa stóð fyrir á Reyðarfirði í tilefni af 40 ára afmæli fyrirtækisins. Þar kom fram að vandamálið með sumar varmadælur er að framleiðendur gefa upp hve miklum varma þær skila umfram raforkunotkun. Óvíst er hins vegar að það eigi við á Íslandi því hagkvæmnin veltur á aðstæðum á hverjum stað. 

Orkan margfölduð
Efla hefur rannsakað hvað sparast með varmadælum við íslenskar aðstæður en rannsóknir voru unnar í samstarfi við Orkustofnun og Jarðboranir. Á Greinihól á Snæfellsnesi var hægt að meira en fjórfalda orkuna með því að draga varma úr borholu með 5-12 gráðu heitu vatni. Í Litlu Brekku við Þingvallavatn var varminn sóttur í útiloft en samt tókst að meira en þrefalda orkuna að jafnaði yfir þriggja ára tímabil. 

Heimir Hjartarsson, vélaverkfræðingur hjá Eflu, segir að varmadælur geti einnig reynst vel við að hita upp sundlaugarvatn. „Á köldum svæðum þar sem sundlaugar eru rafhitaðar geta svona varmadælukerfi verið mjög hentug þar sem þú í rauninni margfaldar varmann sem þú færð út úr hverju kílóvatti. Auk þess henta varmadælur tæknilega vel því þú þarf bara að hita vatnið um tvær gráður áður en því er dælt aftur út í laugina. Þetta er bara framtíðin að vera ekki að hita með rafmagni beint heldur nota varmadælu til að margfalda ágóðann.“

Þó að orkuverð á Íslandi sé lágt í samanburði við önnur lönd þykir þeim sem búa í dreifbýli á Íslandi dýrt að hita hús sínu með rafmagni. Þeir sem búa á köldum svæðum geta fengið aðstoð við að koma sér upp varmadælu. Fengið niðurgreiðslu til húshitunar næstu átta ára fyrirfram í eingreiðslu. Hægt er að reikna út mögulegan ávinning á heimasíðu Orkuseturs.