Verðbólga mælist nú 3,3% og hefur ekki mælst minni hér á landi í rúmlega fimm ár, en atvinnuleysið um þessar mundir er það mesta í áratugi. Ástandið gæti reynst varhugavert, að mati Katrínar Ólafsdóttur, lektors í hagfræði, og erfitt gæti orðið að koma efnahagslífinu aftur í gang ef hér verður verðhjöðnun.
Katrín segir að verðhjöðnun fylgi gjarnan djúpum efnahagslægðum. Ástandið sé ekki orðið þannig hér en hafa verði varann á.
Í verðhjöðnun heldur verðlag stöðugt áfram að lækka. Ef vitað er að bensín verður ódýrara á morgun er líklegt að margir bíði t.d. með að fylla á tankinn á bílnum. Katrín segir að við slíkar aðstæður sé erfitt að sjá hvernig hægt sé að koma efnahagslífinu í gang að nýju.
Atvinnuleysi hefur ekki verið hér meira í manna minnum, það mælist nú 7,1%. Katrín segir þetta óþekkta stöðu hér á landi. Hér þekki menn betur lítið atvinnuleysi og mikla verðbólgu. Stóri vandinn sé að varast að stór hluti hópsins verði varanlega atvinnulaus. Vinna verði að því að koma í veg fyrir að það gerist.