Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir að framkvæmdir við stórskipahöfn í Finnafirði hafi mikil og varanleg umhverfisáhrif. Mesta hættan tengist olíuslysum og ráðaleysi gagnvart þeim.
Samstarfssamningur um uppbyggingu stórskipahafnar í Finnafirði var undirritaður fyrir viku. Stofnað var þróunarfélag til að afla sérleyfishafa til að hefja starfsemi innan svæðisins. Þýska fyrirtækið Bremenports á 66 prósenta hlut í félaginu, sem stefnir að því að byggja upp alþjóðlega stórskipahöfn og iðnaðarsvæði sem á að tengja saman Asíu, austurströnd Bandaríkjanna og Evrópu. Framkvæmdastjóri Landverndar segir framkvæmdina óhjákvæmilega hafa mikil og óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif, á fuglalíf, landslag, ferðaþjónustu og lífríkið í heild. „Þetta er framkvæmd sem verður að fara í umhverfismat og við bíðum og sjáum hvað kemur út úr því, en það er ljóst að þarna verður mikið rask,“ segir Auður.
Mesta hættan er tengd olíuslysum, að mati Auðar. „Ef það verður olíuslys í þessum kalda sjá þá vitum við ekki hvernig á að bregðast við. Eins og kom í ljós þegar var verið að ræða um olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Það er það sem maður er hræddastur við.“
Málið verður tekið fyrir á stjórnarfundi Landverndar á næstunni. „Við vitum ekki hvað við erum að fara út í, þarna er mjög áhættusöm siglingaleið sem á að fórna íslenskri náttúru fyrir og þarna verðum við að passa okkur.“