Var Grímur Thomsen persóna í Ibsen-leikriti?

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons/Samsett mynd
Árið 1888 samdi Henrik Ibsen leikritið „Konan frá hafinu“ (Fruen fra Havet), en fyrirmynd að Ellidu, aðalpersónunni í leikritinu, var dansk-norska skáldkonan Magdalene Thoresen, tengdamóðir Ibsens. Í leikritinu er Ellida gift manni að nafni Wangel, en þó að hún elski mann sinn getur hún ekki gleymt sjómanni sem hún var trúlofuð á æskuárum sínum. Það verður því mikið uppgjör þegar sjómaðurinn birtist og vill að Ellida komi með sér.

 

Magdalene Thoresen hafði á námsárum sínum í Kaupmannahöfn átt í ástasambandi við skáldið Grím Thomsen. Til er bréf, skrifað löngu síðar, þar sem hún segir frá sambandi sínu við Grím og það er athyglisvert að lýsing hennar á Grími er að mörgu leyti lík lýsingu Ellidu á sjómanninum í leikriti Ibsens. Ellida segir að sjómaðurinn hafi verið „eins og hafið“, Magdalene lýsir Grími svo að hann hafi verið „villt vera“ og „náttúruafl“. Ellida segir að sjómaðurinn hafi haft skelfilegt vald yfir sér, hún hafi ekki haft neinn vilja þegar hann var nærri. Magdalena segist hafa orðið að beygja sig í duftið fyrir „demónískum viljakrafti“ Gríms. Var Grímur Thomsen persóna í Ibsen-leikriti? Þessari spurningu verður varpað fram í samnefndum þætti á páskadag kl. 17.00, flutt verða brot úr leikritinu í hljóðritun frá 1979 og einnig tónlist við ljóð eftir Magdalene Thoresen og Grím Thomsen, ljóð sem sum fjalla um hafið. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir. Lesarar eru Sólveig Guðmundsdóttir, Ólafur Sveinn Gunnarsson og Jórunn Sigurðardóttir.

Myndir: T.v. Grímur Thomsen, t.h. Magdalene Thoresen.

 

Una Margrét Jónsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Var Grímur Thomsen persóna í Ibsen-leikriti?