Friðrik Rúnar Garðarsson, rjúpnaskyttan sem leitað var að í tvo sólarhringa, segist hafa verið vanbúinn þegar hann villtist. Hann var ekki með síma, GPS-tæki eða snjóþrúgur. Björgunarsveitamaður segir að það væri gott að hafa reglur um lágmarksbúnað fyrir veiðimenn og fjallgöngumenn.
Friðrik segir að hann hafi vel klæddur en það sé ekki nóg. „Það eru forréttindi að búa í landi þar sem maður getur skotið rjúpur. En Ísland er land þar sem maður á að búa sig undir það að lenda í villu og blindu.“
Vanbúinn fyrir vandræði
Bæði lögreglan á Egilsstöðum og björgunarsveitin Landsbjörg staðfesta það að Friðrik Rúnar hafi verið vel búinn til útivistar. „Hann var vel búinn til útivistar og vel klæddur. En vissulega var hann ekki vel búinn til þess að rata úr villu eða láta vita af sér,“ segir Sveinn Oddsson, formaður svæðisstjórnar björgunarsveita.
Sveinn segir að GSM-símar, eins og iPhone og Samsung, séu ekki góðir kostir upp á fjalli. Eins og í flestum raftækjum klárist rafhleðslan mjög fljótt í svoleiðis tækjum. „Margir veiðimenn eru með litlar talstöðvar, en þær drífa skammt. GPS-tæki eru auðvitað ómetanleg ef menn lenda í blindu og þau eru hönnuð til að standa af sér kuldann. Þau ein og sér hjálpa manni hins vegar ekki að láta vita af sér. Auðvitað ættu allir að vera með áttavita eða kort, eins og af gamla mátanum, en það verður að viðurkennast að menn eru ekki að nota það mikið eftir að GPS-tækin tóku við.“
Engar lágmarkskröfur um búnað
Það eru einungis tvær vikur síðan björgunarsveitirnar hófu leit að tveimur rjúpnaskyttum á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þeir fundust heilir á húfi fimmtán tímum seinna. Neyðarlínan gat notast við búnað sem tengdist GSM-símkerfinu og gaf upp hnit af staðsetningu mannanna.
Sveinn segir að engar lágmarkskröfur séu um búnað veiðimanna eða fjallgöngumanna. „Auðvitað væri gott að hafa slíkar reglur, eða viðmið sem fólk getur notast við. En það eru engar kröfur um lágmarksbúnað.“