Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að að stjórnvöld hafi misreiknað áhrifin sem viðskiptabann Rússa hefði á sjávarútveginn. Samtökin funduðu í gær með embættismönnum vegna stöðunnar sem upp er komin.

Kolbeinn var gestur Morgunútgáfunnar á Rás 1 og Rás 2. Hann sagðist binda vonir við að hægt verði að finna mótvægisaðgerðir - það sé jákvætt að menn séu að reyna að finna lausnir en þetta hefði þó mátt gera áður en ákvörðunin var tekin um að styðja við áframhaldandi refsiaðgerðir gegn Rússum.

Hann segir að þegar ákvörðunin um að taka þátt í refsiaðgerðunum hafi fyrst verið tekin hafi ekki verið haft samráð við fyrirtækin í sjávarútvegi. „Þá bendum við á, fyrir ári síðan, hverjir hagsmunirnir eru og leggjum mikla áherslu á að frekari ákvarðanir verði ekki teknar án þess að haft sé samráð.

Það var ekki gert, segir Kolbeinn, og því kom sú ákvörðun flestum í opna skjöldu. Kolbeinn segir stjórnvöld hafa misreiknað áhrifin af viðskiptabanninu - tölur um útflutning sjávarafurða frá Íslandi til Rússlands sem íslensk stjórnvöld hafi tekið mið af hafi verið rangar. „Þegar málið er tekið upp og rætt eftir að ákvörðun er tekin þá virðist okkur sem svo að þær tölur sem stuðst er við í upplýsingagjöf séu rangar.“

Kolbeinn segir að notaðar hafi verið hráar tölur frá Hagstofunni sem sýni að viðskiptin við Rússland séu í kringum 20 til 23 milljarðar. „En þá gleymist að taka inn í myndina að Hagstofan horfir alltaf á fyrstu löndunarhöfn. Í staðinn fyrir að taka inn tvær stórar uppskipunarhafnir í Evrópu þá er þeim sleppt. Og þá vantar inn í þetta hátt í tíu milljarða.“