Japanska verðlaunamyndin Búðaþjófar er ljúfsárt mannlegt drama þar sem dregin er upp raunsæisleg og falleg mynd af hversdagslífi og áföllum fólks sem býr við ákaflega þröngan kost.
Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:
Búðaþjófar er japönsk kvikmynd eftir leikstjórann Hirokazu Kore-eda og hlaut myndin gullpálmann á Cannes síðasta vor. Hún hefur sópað að sér verðlaunum á kvikmyndahátíðum út um allan heim og var meðal annars tilnefnd til Golden Globe verðlaunanna í flokki kvikmynda á erlendu tungumáli. Í gær kom svo í ljós að Búðaþjófar er einnig tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokki erlendra kvikmynda og keppir þar meðal annars við Roma eftir Alfonso Cuarán og Cold War eftir Pawel Pawlikowski. Gullpálminn er þó ekki fyrstu verðlaun Kore-eda á Cannes en hann fékk dómnefndarverðlaunin árið 2013 fyrir kvikmynd sína Like Father like Son.
Búðaþjófar gerist í Tókýó sem er nokkuð ólík þeirri borg sem gjarnan ber fyrir augu áhorfenda fyrir utan Japan. Neonskilti, háhýsi, mannamergð og framsækin neyslumenning Tokýóborgar er fjarri sögusviðinu sem er hverfi í útjaðri borgarinnar, hverfi sem hin mikla efnahagslega velmegun virðist ekki hafa náð til.
Búðaþjófar fjallar um óvanalega fjölskyldu sem býr saman í þröngum húsakynnum og berst við fátækt, en þau neyðast til þess að draga björg í bú með búðarhnupli á milli þess sem fullorðna fólkið stritar í láglaunastörfum við ótrygg skilyrði. Fjölskyldan samanstendur af hjónunum Osamu og Nobuyo, unga drengnum Shota, Aki, ungri konu sem vinnur fyrir sér með því að skemmta karlmönnum á gægjuklúbbi og svo ömmunni, Hatsue, sem skýtur skjólhúsi yfir þau öll og lifir á lífeyri látins eiginmanns síns. Strax í upphafi myndarinnar fjölgar íbúunum þegar Osamu og Shota koma heim með litla stúlku, Yuri, sem verður á vegi þeirra, en hún er augljóslega vanrækt og hefur veið beitt ofbeldi. Fjölskyldan hleypir henni inn og gefur henni að borða en þegar hjónin fara heim aftur með Yuri og sjá heimili hennar og heyra lætin sem berast þaðan, ákveða þau að ættleiða hana og hún er tekin skilyrðislaust inn í fjölskylduna. Þau líta svo á að þau hafi bjargað henni en ekki rænt, alveg eins og það er í lagi að stela úr búðum svo framarlega sem það skaðar ekki fjárhag búðarinnar. Þau lifa samkvæmt sínum gildum, af illri nauðsyn, sem eru að einhverju leyti góð innan þeirra heimsmyndar þó svo að þau séu á skjön við lög og siðferðisreglur samfélagsins.
Kvikmyndin snertir á ýmsum viðkvæmum þáttum japansks samfélags, meðal annars félagslegri einangrun og því rofi sem hefur orðið í nánum samskiptum á milli fólks, sem er einna greinilegast í þeim senum sem sýna Aki við störf á klúbbnum þar sem hún þjónustar einmana og þunglynda kúnna sem borga fyrir að láta strjúka á sér hárið og fylgjast með nektarsýningum úr felum. Nánd og hlýja orðin að vöru sem þarf að kaupa í samfélagi síð-kapítalískrar neysluhyggju.
Það er einnig áhugavert að forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, sendi ekki hamingjuóskir til leikstjórans Kore-eda í kjölfar sigurs myndarinnar á Cannes, en franska dagblaðið Le Figaro vakti athygli á því. Kore-eda hefur enda gagnrýnt japönsk stjórnvöld opinberlega og Búðaþjófar tekur á félagslegum veruleika sem stjórnvöld kæra sig greinilega ekki um að fangi athygli fólks innan sem utan Japans. Eins og flestir vita þá er fæðingartíðni í Japan með lægsta móti og japanska efnahagsundrið tilheyrir fortíðinni, staðreyndin er sú að fjöldi barna í Japan lifir við fátækt. Að sama skapi lýsa vinnuaðstæður fullorðna fólksins streði þeirra sem vinna láglaunastörf án fastráðningar, en það má mjög lítið út af bera til þess að þau nái ekki endum saman. Búðaþjófarnir er samt sem áður alls ekki að draga upp einhliða neikvæða mynd af japönsku samfélagi og félagslegum vandamálum sem eru vitaskuld til staðar þar eins og alls staðar, heldur fagnar myndin einmitt mikilvægi fjölskyldunnar, sem getur verið samsett á svo marga vegu og setur í öndvegi fegurð og mikilvægi samveru og samskipta. Myndin er vitaskuld einnig hörð gagnrýni á úrræðaleysi stjórnvalda í barnaverndarmálum. Búðaþjófar er byggð á sannri sögu um barnshvarf, en það segir kannski sitt um kurteisisreglur í Japan hversu erfitt það er fyrir forsætisráðherra landsins að horfast í augu við þá raunverulegu erfiðleika og fátækt sem margir þegnar lands hans þurfa að búa við. Þetta segir okkur líka hvað kvikmyndir hafa mikið vægi í allri samfélagsumræðu, þær eru tæki til þess að segja mikilvægar sögur, sannar og skáldaðar og miðla samfélagsgagnrýni.
Ég hef ekki séð fyrri myndir leikstjórans Kore-eda, en samkvæmt því sem ég hef lesið um þær þá er fjölskyldan honum hugleikinn efniviður. Búðaþjófar kallast einnig á við nokkrar kvikmyndir sem hafa komið út á síðustu misserum sem taka á svipuðum málefnum. Það eru myndirnar The Florida Project eftir Sean Baker og Happy as Lazzarro eftir Alice Rohrwacher en þær fjalla um fátækt, misskiptingu og stéttaskiptingu en gera það á fallegan og á köflum glaðværan hátt án þess að grafa undan alvarleika aðstæðnanna sem sögupersónurnar lifa við, en spjótin beinast að hugmyndafræði kapítalisma og nýfrjálshyggju sem grafið hefur undan velferðarsamfélaginu og skert réttindi verkafólks. Bæði Búðaþjófarnir og The Florida Project skarta ungum börnum í aðalhlutverkum og fjalla um börn sem lifa við fátækt og í báðum tilvikum þurfa umönnunaraðilar þeirra að leggja ýmislegt misjafnt á sig og börnin til þess að eiga í sig og á, en inn á milli leynast svo falleg augnablik og gleðistundir.
Leikarahópurinn í Búðaþjófunum er frábær og að öllum öðrum ólöstuðum þá er Kirin Kiki í hlutverki ömmunnar Hatsue ógleymanleg en þetta reyndist vera hennar síðasta hlutverk áður en hún lést. Það er hvergi hnökra að finna í myndinni sem líður áfram áreynslulaust. Búðaþjófar er ljúfsárt mannlegt drama og þar sem dregin er upp raunsæisleg en líka falleg mynd af hversdagslífi og áföllum fjölskyldunnar óvenjulegu sem býr við svo þröngan kost. Myndin rómantíserar þó alls ekki fátæktina né verður melódramatísk þegar stóra samfélagið bankar upp á og raskar lífinu sem fjölskyldan hefur byggt upp, umgjörð myndarinnar og frásagnarinnar er hógvær og látlaus en líka húmorísk þó svo að sorgin sé alltaf rétt handan við hornið.
,,Stundum er betra að velja sína eigin fjölskyldu” segir Nobuyo við Hatsue þegar móðirin og amman virða fyrir sér fjölskyldu sína leika sér saman í flæðarmálinu á dýrmætum frídegi. Hatsue svarar Nobuyo að þessi hamingja þeirra eigi ekki eftir að endast lengi, hún sé tímabundin. Boðskapurinn er að ást og umhyggja einskorðast ekki við blóðbönd og kannski að það sé á ábyrgð okkar allra að láta okkur annt um velferð allra barna sem eru vanrækt, beitt ofbeldi og lifa í fátækt.