Hafi fyrrverandi ráðherra gerst brotlegir við lög um ráðherraábyrgð með vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins, geta þeir hlotið allt að tveggja ára fangelsisdóm.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið eru þeir Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra, Árni Mathiesen fyrrverandi fjármálaráðherra og Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra sagðir hafa sýnt af sér vanrækslu í starfi í aðdraganda bankahrunsins.

Þingmannanefnd, sem fjalla á um skýrsluna og móta tillögur að viðbrögðum þingsins við niðurstöðum hennar kemur saman á morgun. Björgvin G. Sigurðsson hvetur nefndina til að kalla saman Landsdóm til að kveða upp um meinta vanrækslu ráðamanna.

„Það er ákvæði um þetta í lögunum um ráðherraábyrgð frá árinu 1963. Þar er talað um embættismissi, sektir eða fangelsi allt að tveimur árum.“ Hann segir einnig það þurfa að koma til refsiskilyrða sem teljast til stórkostlegs hirðuleysis. „Sé þeim refsiskilyrðum talið fullnægt þá er það mat á því hversu mikið það er hvað ræður refsiákvörðun, það er venjulegt í sakamálum,“ segir Atli Gíslason, formaður Þingmannanefndar Alþingis. „Við eigum að ljúka þessu fyrir þinglok, það er að segja í september, og við stefnum fast að því.“

Páll Hreinsson formaður Rannsóknarnefndar Alþingis segir það Alþingis en ekki nefndarinnar að ákveða hvort Landsdómur verður kallaður saman til að fjalla um embættisfærslu ráðherra.