Steinunn Anna Sigurjónsdóttir barnasálfræðingur segir að tölvuleikir séu orðnir vandamál hjá börnum ef þau taka leikina fram yfir allt annað og sýni skapgerðarbreytingar. Þá sé ráðlegt að leita ráðgjafar hjá sálfræðingi. Arnar Hólm Einarsson, sjálfskipaður tölvunörd og fræðslustjóri Rafíþróttasambands Íslands, segir mikilvægt fyrir foreldra að setja ramma í samstarfi við krakkana og sýna þessu áhugamáli þeirra áhuga. Rætt var við þau í Kastljósi í kvöld.

Tölvuleikurinn Fortnite hefur á örfáum misserum orðið einn vinsælasti tölvuleikur veraldar. Notendur eru orðnir meira en 200 milljónir, og talið er að leikurinn hafi gefið meira en tvo milljarða bandaríkjadala í aðra hönd. Þessar miklu vinsældir leiksins hafa vakið áhyggjur af því að hann valdi tölvuleikjafíkn, að fólk og sérstaklega börn ánetjist honum og láti hann taka líf sitt yfir. Í Kastljósi kom fram að það eru ekki síst foreldrar og kennarar sem líta leikinn hornauga, en frést hafi af börnum allt niður í níu ára aldur, sem spili leikinn tíu til tólf tíma á dag og hafi þurft að fara í meðferð til að ná stjórn á spilamennskunni. 

Mikilvægt að setja ramma 

Steinunn segir að foreldrar þurfi að vera meðvitaðir um það hversu miklum tíma börnin þeirra verja í tölvu, símum eða öðrum slíkum tækjum og reyna að setja ramma utan um þessa notkun. 

Arnar Hólm segir að tölvuleikjaspil geti verið vandamál og tekur undir með Steinunni að mikilvægt sé að setja ramma og þá í samstarfi við krakkana. Hann ráðleggur foreldrum að sýna þessu áhugamáli barna sinna áhuga jafnvel þótt þeir hafi sjálfir takmarkaðan áhuga á tölvuleikjum. Hann segir Fortnite hafa haft margt jákvætt í för með sér.  „Við erum búin að sjá dansnámskeið, fólk er að koma og spila saman. Það er fullt af jákvæðu líka sem mér finnst ekki mega gleymast í umræðunni vegna þess að hún verður oft rosalega negatíft gildishlaðin. Við einblínum svolítið á verstu dæmin í staðinn fyrir að taka kannski mjög góð jákvæð dæmi líka.“

Geta spilað tölvuleiki með vinum heima 

Arnar starfar með unglingum í félagsmiðstöð. Hann segir að í klúbbastarfi, til dæmis um Fortnite, sé hægt að fá saman krakka sem hafa áhuga á leiknum og þar verði oft til vinátta sem nái út fyrir klúbbinn. „Þau kannski byrja að spila saman leikinn heima, eru að koma í félagsmiðstöðina að spila. Þessi félagslegi partur er gríðarlega mikilvægur. Og ef við erum mögulega að missa krakkana okkar í tölvuleiki eins og þetta, af hverju prófum við ekki sem foreldrar að bjóða heim í LAN (þá tengja nokkrir vinir saman tölvur og spila tölvuleiki saman á heimilinu)? Er það eitthvað alslæmt?“

Steinunn segir að ef tölvuleikir eru orðnir vandamál hjá krökkum þá séu þeir farnir að taka tölvuleikina fram yfir aðra hluti. „Þannig að þau fást kannski ekki til að læra, þau eru farin að vaka allt of lengi á kvöldin, það verða skapgerðarbreytingar, pirruð spenna. Það eru hlutir til að fylgjast með. Ég er sammála Arnari um að við eigum að hafa áhuga á þessu líka sjálf, við eigum að vera forvitin um það sem þau eru að gera, svo lengi sem þau eru líka að gera allt annað sem þau eiga að vera að gera og við viljum að þau geri.“

Hægt er að horfa á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

Erfiðara að grípa inn í þegar börnin verða eldri

Steinunn segir að best sé að bregðast við á meðan börn eru yngri. „Það er erfiðara að grípa inn í því eldri sem þau verða. Ef þú ferð að sjá meiri tíma í þessum leikjum og þau fara að draga úr tómstundum og að hitta vini, miðað við það sem var, og skapgerðarbreytingar, þá myndi ég ráðleggja að fara og fá einhverja ráðgjöf.“ Hægt sé að fá aðstoð sálfræðinga í heilsugæslustöðvum og skólum, en einnig á einkastofum. Þá sé einnig hægt að leita til Heimili og skóla eða SAFT.

Steinunn segir erfitt að segja til um hvað sé heilbrigður skjátími. Það fari eftir því hvað barnið sé að gera í tölvunni og hvort það sé eitt inni í herbergi í tölvunni eða með öðrum. Hún segir þó að viðmið erlendis frá sé að fram að fimm ára aldri eigi heildarskjátími á dag ekki að fara yfir eina klukkustund. 

Ekki búa til vandamál  

Arnar segir þetta einstaklingsbundið.  „Er krakkinn í öðrum íþróttum, er hann að sinna tómstunda- og frístundastarfi?  Ef þetta er ekki vandamál, af hverju þá að reyna að búa til vandamál? Af hverju að leyfa þessu ekki að vera eins og er? Stíga inn í sem foreldri, sýna þessu áhuga, prófa að taka leik með, vera virkt foreldri. Bara njóta þessa, því tæknin er ekki að fara að minnka og Internetið er ekki bóla. Þannig að við skulum bara setja í næsta gír og tökum bara virkan þátt í þessu með krökkunum okkar.“