Valur varð í kvöld Íslandsmeistari kvenna í körfubolta í fyrsta sinn eftir 87-64 sigur gegn Keflavík í þriðja leik úrslitaeinvígis liðanna um Íslandsmeistaratitilinn. Liðið hefur þar með unnið alla titla sem í boði voru á tímabilinu.
Valur leiddi einvígið gegn Keflavík 2-0 fyrir leik kvöldsins eftir nauman sigur í Keflavík á miðvikudagskvöld. Þrjá sigra þarf til að vinna einvígið og var því ljóst fyrir leik að sigur myndi duga Valskonum til Íslandsmeistaratitilsins.
Valskonur byrjuðu leikinn betur og leiddu 19-13 eftir fyrsta leikhluta. Þá kæfðu þær leikinn í raun í öðrum leikhluta þegar liðið skoraði 28 stig gegn aðeins 14 stigum Keflavíkur og leiddu því 47-27 í hálfleik.
Eftir það var aldrei spurning hvort liðið stæði uppi sem sigurvegari í leiknum en Valur vann leikinn að lokum 87-64 og einvígi liðanna því 3-0. Valskonur eru því Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í sögunni. Þær unnu fyrr í vetur sinn fyrsta bikarmeistaratitil og því um sögulega gott Valslið að ræða. Þær eru þrefaldir meistarar í ár en þær unnu einnig deildarmeistaratitilinn fyrr í vetur.
Helena Sverrisdóttir var öflug í liði Vals en hún skoraði 25 stig, tók 13 fráköst og var með sjö stoðsendingar. Þá var Heather Butler einnig með 25 stig og sjö stoðsendingar. Hjá Keflavík var Bryndís Guðmundsdóttir með 15 stig en Brittanny Dinkins var með 14 stig og 11 fráköst.
Að ofan má sjá viðtöl við Hallveigu Jónsdóttur, Heather Butler og Helenu Sverrisdóttur, leikmenn Vals, auk viðtals við Darra Frey Atlason, þjálfara liðsins.