Væntir þess að störf haldist á Akranesi

11.05.2017 - 17:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bæjarstjóri Akraness hefur væntingar um ný störf starfsfólks HB Granda á Akranesi verði jafnframt í bænum. Hann vill tryggja að sjávarútvegur verði áfram meginatvinnugrein á Akranesi og segir að ráðist verði í hafnarframkvæmdir í bænum til að tryggja það.

Ákvörðun HB Granda vonbrigði

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, segir það vonbrigði að HB Grandi ætli að hætta botnfiskvinnslu á Akranesi: „Það er þó ánægjulegt að þau ætli að bjóða fólki störf og höfum væntingar um að þau verði að stórum hluta á Akranesi.“ Enn sé að einhverju leyti óljóst hvar nýju störfin verða og því erfitt að segja nákvæmlega til um hver áhrifin verði á starfsfólk og bæinn fyrr en það liggur fyrir. „Það skiptir auðvitað máli að það verði auðvelt fyrir fólk að sækja vinnu,“ segir Sævar Freyr.  Það séu þó ýmsir möguleikar í stöðunni og nefnir sem dæmi fyrirhugaðar ferjusiglingar milli Akraness og Reykjavíkur. Mikilvægt sé þó að sem flest störf haldist á Akranesi en það ætti að skýrast á næstu vikum. 

Áframhaldandi viðræður við HB Granda

Undanfarnar vikur hafa staðið yfir viðræður Akraneskaupstaðar og HB-Granda um áframhaldandi starfsemi fyrirtækisins á Akranesi og Sævar segir að þeim viðræðum sé ekki lokið. Ýmislegt sé enn til umræðu sem sé of snemmt að greina frá. Það sem hafi þó komið útúr viðræðunum sé, eins og bænum hafi verið kunnugt um, að það verði að bæta hafnaraðstöðuna á Akranesi fyrir stærri skip með nauðsynlegum viðhaldsaðgerðir: „Við ætlum að tryggja það að Akraneshöfn verði byggð upp og það verður gert á næstu tveimur árum sömuleiðis verður farið í uppfyllingu í höfninni, sem mun taka um 4 ár sem gerir okkur kleift að sækja fram.“

Vill tryggja Akranes sem sjávarútvegsbæ

Þannig vill Sævar jafnframt tryggja að aðrar útgerðir og fiskvinnslufyrirtæki sjái Akranes sem enn betri valkost og að það hafi verið rætt við aðra aðila í þessu sambandi: „Vil munum leggja áherslu á það að útgerð og fiskvinnsla verði áfram meginstoðir atvinnulífs akraness og viljum tryggja að svo verði til framtíðar.“ Sævar vill jafnframt starfa með stjórnvöldum til að Akranes verði áfram rótgróin útgerðabær. „Við höfum fengið smá löðrung og viljum tryggja það að hann styrki okkur til framtíðar,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness.